Sannleikurinn um Peres

Greinar

Nokkrir íslenzkir þingmenn fengu ákúrur fyrir hálfu þriðja ári, þegar þeir vildu ekki sitja til borðs með stríðsglæpamanninum Símoni Peres í opinberri heimsókn hans til Íslands, og DV fékk sömuleiðis ákúrur fyrir að segja sannleikann um hann í leiðara blaðsins.

Peres hafði sem hermálaráðherra Ísraels borið ábyrgð á barnamorðunum í Palestínu, þegar hundruð barna voru skotin til bana fyrir að kasta grjóti. Hann stjórnaði refsiaðgerðum gegn ættingjum grunaðra hryðjuverkamanna og eyðileggingu efnahags Palestínu.

Peres og samstarfsmenn hans hafa margbrotið hvert einasta ákvæði alþjóðlegra laga um meðferð stríðsfanga og um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Þeir reka eitt helzta hryðjuverkaríki heims um þessar mundir og haga sér að ýmsu leyti verr en nazistar Hitlers.

Árásir Ísraels á Líbanon á undanförnum dögum hafa kostað að minnsta kosti 136 óbreytta borgara lífið. Þetta er refsing Peresar og Ísraels fyrir fall eins óbreytts borgara Ísraels á þessum sama tíma. Þetta á að vera eins konar auga fyrir auga að mati Ísraelsmanna.

Herleiðing hugarfarsins er ekki bundin við ráðamenn Ísraels. Mikill meirihluti þjóðarinnar lítur á sig sem guðs útvalda þjóð, sem sé ofar alþjóðalögum og heimilt að ofsækja nágrannaþjóðirnar á svipaðan hátt og forfeður hennar reyndu að gera fyrir þúsundum ára.

Ísrelar eru almennt gegnsýrðir hinu krumpaða hugarfari, sem lengi hefur einkennt ráðamenn landsins. Morðin Í Líbonon hafa ekkert hernaðarlegt eða utanríkispólitískt gildi. Þau eru ekkert annað en aðferð Peresar við að ná endurkosningu sem forsætisráðherra.

Því fleiri sem Peres lætur drepa í Líbanon, þeim mun meiri líkur eru á, að hann nái kosningu. Með morðunum hefur honum tekizt að snúa á stjórnarandstöðuna og skrúfa sjálfan sig upp vinsældalistann. Þessi staðreynd sýnir vel ástand hinnar hrokafullu þjóðar.

Áratugum saman hefur þetta krabbamein Miðausturlanda verið ræktað af ráðamönnum Bandaríkjanna. Þau leggja Ísrael til upphæðir, sem nema árlega nokkur hundruð milljörðum íslenzkra króna. Bandarískt fjármagn hefur gert Ísrael að hrokafullu yfirgangsríki.

Ísrael og Bandaríkjunum hefur tekizt að rústa efnahag Palestínu og Líbanons, nú síðast að koma hálfri milljón óbreyttra Líbanonsmanna á flótta frá heimilum sínum. Sameiginlega bera Ísrael og Bandaríkin fjárhagslega ábyrgð á þessum afleiðingum gerða sinna.

Engin leið virðist vera að koma vitinu fyrir Bandaríkjamenn, enda eiga frásagnir af hryðjuverkum Ísraela erfitt uppdráttar í bandarískum fjölmiðlum. Undirritaður horfði í Jerúsalem á lögregluárás á kristna skáta, sem þagað var um í öllum bandarískum fjölmiðlum.

Ekki þarf að vera lengi í Ísrael til að taka eftir, hvernig þjóðin hefur krumpazt af hrokafullri kenningu um sig sem guðs útvalda þjóð. Hún lítur á Líbanons- og Palestínumenn sem hunda og hagar sér í samræmi við það. Hún kýs sér þá leiðtoga, sem mestri hörku lofa.

Stríðsglæpamaðurinn Símon Peres veit þetta. Blóðbaðið í Líbanon hefur ekkert með hernaðarlega eða utanríkispólitíska stöðu landsins að gera. Blóðbaðið í Líbanon er liður í innanríkispólitík Ísraels. Það kostar blóð að safna atkvæðum meðal hryðjuverkaþjóðarinnar.

Íslenzkir stjórnmálamenn eru sem betur fer að byrja að átta sig á, að allt var það satt, sem sagt var hér í leiðara DV um Peres og Ísrael fyrir hálfu þriðja ári.

Jónas Kristjánsson

DV