Sátt um vaxtaskatt

Greinar

Tvær sterkar röksemdir eru fyrir fjármagnstekjuskatti, sem breið samstaða hefur náðst um hér á landi. Í fyrsta lagi er slíkur skattur í nágrannalöndunum. Vaxtaskattur hefur staðizt pólitíska umræðu í öðrum löndum og virðist ekki vera þar umdeildur að neinu ráði.

Í öðru lagi virðist sanngjarnt, að tekjur, sem peningar afla, taki þátt í rekstri samfélagsins, alveg eins og tekjur, sem hugur og hönd afla. Raunar halda margir fram, að ekki eigi að gera neinn greinarmun á þessu. Láta skuli vexti bera sömu skatta og aðrar tekjur.

Niðurstaðan varð þó sú, að fjármagnstekjur beri lægri skatta en aðrar tekjur, það er að segja flatan 10% skatt. Þessi niðurstaða er dæmigerð málamiðlun. Um hana náðist víðtæk samstaða í nefnd, sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins.

Andstæðingar skattsins telja, að hann muni hækka vexti eða draga úr sparnaði fólks, nema hvort tveggja verði. Raunar virðist eðlilegt, að vextir hækki sem nemur skattinum, svo að meiri líkur séu á, að sparnaður haldist í horfinu, sem hlýtur að teljast brýnt.

Andstæðingar skattsins segja líka, að innheimta hans muni kosta nokkur hundruð milljónir króna á ári í fjármálastofnunum landsins. Innheimta hans verði dýr, sem stafar meðal annars af þeirri málamiðlun, að skatthlutfallið er annað en í tekjuskattinum.

Enn er óvíst um sum hliðaratriði fjármagnstekjuskattsins. Í niðurstöðu nefndarinnar er lagt til, að ýmsar breytingar verði gerðar í tengslum við aðra skatta um leið og kemur til sögunnar þessi nýi skattur, sem á að útvega ríkinu allt einn milljarð króna á ári.

Þessi hliðaratriði munu vafalaust hafa nokkur áhrif á mat manna á niðurstöðu málsins. Kjarni hennar er þó sá, að náðst hefur víðtæk samstaða stjórnmálaafla og vinnumarkaðar um þessa ákveðnu niðurstöðu, þannig að um hana mun ríkja sómasamlegur friður.

Stuðningsmenn og andstæðingar vaxtaskattsins munu eiga auðvelt með að finna galla á niðurstöðunni. Hún er dýr í rekstri og hefur ýmsa aðra annmarka, sem jafnan fylgja málamiðlunum. En pólitískur friður skiptir miklu máli og hefur verið hafður að leiðarljósi.

Frá lýðræðislegu sjónarmiði er til fyrirmyndar, hvernig staðið hefur verið að undirbúningi vaxtaskattsins. Nefndin hefur gefið sér góðan tíma til starfa. Afgreiðslu málsins var um skeið frestað til að reyna að sætta ólík og í mörgum tilvikum gagnstæð viðhorf.

Saga málsins er raunar dæmisaga um kosti og lesti lýðræðislegra vinnubragða. Þau kosta stundum mikinn tíma og leiða ekki alltaf til hagkvæmustu niðurstöðu. En þau gera mikilvægustu málsaðilana að þátttakendum framvindunnar og að ábyrgðaraðilum hennar.

Þannig heldur þjóðfélagið saman. Þetta er sama viðhorfið og kemur fram í ýmsum þjóðarsáttum, sem gerðar hafa verið á snertiflötum stjórnmála og atvinnumála á undanförnum árum. Víðtæk samstaða um einstök mál eflir samstöðu þjóðarinnar í heild um tilveru sína.

Lítils háttar upphlaup hefur orðið á Alþingi í kjölfar niðurstöðunnar, enda er ekki laust við, að sumir hafi fengið bakþanka. Þetta upphlaup leitar væntanlega í dag útrásar í útvarps- og sjónvarpsumræðu og er eðlilegur þáttur í lýðræðislegri framvindu málsins.

Fólk getur haft ýmsar skoðanir á, hvort vaxtaskattur sé góður eða vondur, en flestir munu þó fallast á, að gott sé að hafa víðtækt samkomulag um niðurstöðuna.

Jónas Kristjánsson

DV