Sauðfé skipað til öndvegis

Greinar

Íslendingar hafa fengið það, sem þeir vildu og eiga skilið, nýjan búvörusamning til næstu aldamóta, sem kostar okkur 1,2 milljörðum meira en gamli samningurinn hefði gert, ef hann hefði verið framlengdur. Hvorki sparast þetta fé né verður það notað í neitt annað.

Almenningur fær að borga tólf milljarða á næstu árum fyrir að halda uppi offramleiðslu á dilkakjöti ofan á þá tugi milljarða, sem hann hefur borgað á síðustu áratugum. Almenningur heldur áfram að verja sem svarar heilum orkuverum til að þjónusta þetta hugsjónamál.

Samt er öllum ljóst, að þeir peningar, sem brenna í hugsjónaeldi sauðfjárræktar, verða ekki notaðir í annað, sem almenningur gæti óskað sér, né heldur til að lækka álögur á almenning. Lífskjörin í landinu rýrna sem nemur þeim fjárhæðum, sem brenndar eru í landbúnaði.

Þjóðin er ánægð með að fá að fórna verðmætum í þetta. Hún kærir sig kollótta um, þótt skólakerfið sé að laskast vegna fátæktar og hún kærir sig kollótta um, þótt farið verði að skammta inn á spítala vegna fátæktar. Aðalatriðið er, að sauðféð fái sitt og engar refjar.

Íslenzkir stjórnmálamenn vita, að stjórnmálaflokkar fá því meira fylgi, sem þeir ganga harðar fram í stuðningi við sérhagsmuni landbúnaðar. Það er því engin furða, þótt hver búvörusamningurinn öðrum dýrari leysi annan af hólmi. Það er þetta, sem fólkið vill.

Við höfum verið að fjarlægjast nágranna okkar í lífskjörum. Hér hefur allt verið á niðurleið árum saman, meðan efnahagsástandið er að batna í kringum okkur. Þetta stafar af, að þjóðin hefur valið sér forgangsröð, þar sem lífskjör fólks eru nokkrum þrepum neðar en sauðfé.

Bilið milli Íslands og umheimsins mun áfram aukast á næstu árum. Vel menntað og hæfileikamikið fólk mun flýja láglaunaland frumframleiðslu og skorts á tækifærum. Fleiri sjúkrahúsdeildum verður lokað og skólum fækkað. Allt verður þetta samkvæmt þjóðarvilja.

Íslendingar mega ekki til þess hugsa, að sauðfé fækki hér á landi niður í þær 200.000 kindur, sem markaður verður fyrir um aðvífandi aldamót. Þeir vilja fá að halda uppi ofbeit og landeyðingu til að fá að velja milli þess að reyna að gefa kjötið til útlanda eða urða það.

Þess vegna gerir nýi búvörusamningurinn aðeins ráð fyrir fækkun um 30.000 kindur á samningstímanum. Við munum því áfram fagna vori með því að senda sauðfé beint á nálina á Mývatnsöræfum um leið og hún stingur upp kollinum. Þetta er okkar eina og sanna hugsjón.

Tólf milljarða framlagi til sauðfjárræktar verður ekki varið til að fækka sauðfé á markvissan hátt, heldur til að halda sem allra mestum sauðfjárbúskap gangandi á kostnað allra annarra þarfa þjóðfélagsins. Þar með verður tryggt, að þjóðin fær áfram að kosta hugsjón sína.

En þá þýðir ekki heldur að vera að kvarta og kveina út af smámunum. Það þýðir ekki að væla út af lágum launum, háu verði á matvælum, miklum sköttum, skorti á opinberri þjónustu, minnkandi velferð og lakari lífskjörum á öðrum sviðum. Þetta á fólk bara skilið.

Íslendingar geta ekki stutt fortíðina í verki með árlegum milljörðum og jafnframt heimtað að fá að lifa betra lífi. Við getum ekki bæði étið kökuna og átt hana. Þjóðarsáttin um verndun sauðfjárræktar kostar þá peninga, sem annars nýttust á öðrum sviðum eða spöruðust.

Fyrirhuguð forgangsröð að sjúkrahúsum er bara ein af mörgum afleiðingum mikilvægari forgangsraðar, þar sem dýrustu skepnu veraldar er skipað til öndvegis.

Jónas Kristjánsson

DV