Sauðirnir skila sér

Greinar

Sauðir flokksins munu margir skila sér heim að húsum, þótt þeir hafi hlaupið á fjöll í áföllum, sem nýjustu athafnir forsætis- og dómsmálaráðherranna hafa valdið flokknum. Ríkisstjórnin hefur tapað orrustum, en stríðinu er hvergi nærri lokið. Glatað fylgi skilar sér yfirleitt um síðir.

Stöðu flokksformanns annars vegar og kjósenda hins vegar í Sjálfstæðisflokknum hefur frá ómunatíð verið stjórnað af óskrifuðu samkomulagi um, að formaðurinn standi og falli með því að skaffa. Hann er ráðinn til að hugsa og framkvæma. Hann er fjárhirðirinn og vísar slóðina, sem sauðirnir rölta.

Það er að vísu sérkennileg staða Sjálfstæðisflokksins að vera málsvari eftirlitsþjóðfélags og ríkisrekstrar gegn frjálsu framtaki markaðshagkerfisins. Ungliðahreyfingar og hugmyndafræðingar flokksins eiga að vonum bágt með að fóta sig á stöðu flokksins sem Stóra bróður ríkisbáknsins.

Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi stjórnað ráðuneyti menntamála, hefur hann haft tækifæri til að pakka atvinnulausum og óvinnufærum flokksjálkum í valdastöður ríkissjónvarpsins. Flokkurinn hefur lent í þeirri ógæfu að hafa hagsmuni af viðgangi ríkisrekinnar myndbandaleigu.

Ekki megum við heldur gleyma, að yfirstétt flokksins er að mestu skipuð lögfræðingum, sem hafa alið aldur sinn á framfæri hins opinbera og eru lítt kunnugir einkarekstri. Meint dálæti flokksins á markaðshagkerfinu hefur lengi verið meira í nösum hugmyndafræðinga en í raunveruleikanum.

Verið getur, að kjósendur hafi loksins áttað sig á, að Sjálfstæðisflokkurinn siglir undir fölsku flaggi frjáls markaðshagkerfis og að skapþungur formaður flokksins hefur stýrt þjóðarskútunni á boða einræðis, valdbeitingar og geðþótta og þó fyrst og fremst á sker haturs og hefnigirni.

Í tvígang á skömmum tíma hefur ríkisstjórnin látið semja sértæk lagafrumvörp, sem beinast gegn einu fyrirtæki, fyrst Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og síðan Norðurljósum. Slík lög eru illa séð úti í hinum siðmenntaða heimi og þykja vera dæmi um geðþótta og valdbeitingu í bananalýðveldum.

Hugsanlegt er, að formaður flokksins geti pakkað svo vel vinum og vandamönnum í Hæstarétt, að hann hindri framgang réttlætis þar á bæ. Formaðurinn er hins vegar gersamlega valdalaus úti í Evrópu, þar sem æðsta dómstig landsins er núna vistað. Til allrar hamingju fyrir íbúa bananalandsins.

Dapurt fylgi stjórnarinnar í nýrri könnun getur bent til, að augu fólks séu að opnast. Hætt er þó við, að upphlaupið sé tímabundið og smám saman muni sauðir skila sér heim.

Jónas Kristjánsson

DV