Tvisvar á sunnudaginn hélt ég, að ég væri að fá hjartaslag. Klifraði niður í þrjú gil og upp úr þremur giljum með hest í eftirdragi. Elti rollur tvisvar sinnum hringinn kringum stapa. Klöngraðist þrisvar upp á stapa og þrisvar niður aftur. Þannig var smalað á Kaldbak, Kluftum og Hrunakrók og á stórbýli fjármálaráðuneytisins, Hrunaheiðum. Steingrímur J. Sigfússon var að vísu ekki mættur, en ég puðaði fyrir hann. Árangurinn var þessi: Fyrir smölun voru fimmtán óboðnir hausar í túninu á Kaldbak. Nú eru átta hausar á Kluftum að éta skógrækt Skógar-Björns. Sigur sauðkindarinnar, ósigur Hrunamanna.