Saumað að fólki.

Greinar

Beiðnum um aðstoð Mæðrastyrksnefndar hefur fjölgað verulega frá því í fyrra. Þetta er eitt dæmið um, að hinir verst settu í þjóðfélaginu sigla nú inn í sárari fátækt en í fyrri kreppuskeiðum síðustu tveggja áratuga.

Ekki er unnt að búast við, að þetta hörmulega ástand verði leyst á vettvangi atvinnulífsins. Í samtökum launafólks viðurkenna forustumenn opinberlega, að enginn vilji sé til vinnudeilna á næstu mánuðum að minnsta kosti.

Í þessum samtökum hefur líka komið fram andstaða hinna betur settu gegn hugmyndinni um 15.000 króna lágmarkslaun, nema hækkunin færi að einhverju leyti upp stigann og kæmi einnig fram í yfirvinnu og ákvæðisvinnu.

En þar með væri eyðilögð hugmyndin um að einbeita kröftunum að kjörum þeirra, sem sitja á botni pýramídans. Aukin verðbólga mundi fylgja í kjölfar hækkunar upp launastigann. Hinir aumustu sætu eftir sem áður með sárt ennið.

Ekki er heldur unnt að sjá, að lækkaðar álagningarprósentur opinberra gjalda muni lina þetta vandamál. Deilur stjórnmálamanna um skattbyrðina hafa leystst upp í almenna viðurkenningu á, að hún muni hækka á næsta ári.

Það þyngir svo vandann, að spár um minnkandi þorskafla á næsta ári hafa leitt til síðbúinnar lækkunar á spá fjárlagafrumvarpsins um launahækkanir. Þar með er enn ólíklegra en fyrr, að hægt verði að halda óbreyttri skattbyrði.

Enn verra er ástandið í útsvörunum. Almennt munu sveitarfélögin, þar á meðal Reykjavík, ekki telja sér kleift að lækka útsvarsprósentuna um þau 2-3 stig, sem þyrfti til að halda óbreyttri útsvarsbyrði á næsta ári.

Þetta kemur hart niður á hinum verst settu, sem hafa útsvarsskyldar tekjur, en ekki nógu háar tekjur til að tekjuskattur mælist. Þessi byrði bætist ofan á aðra lífskjaraskerðingu, sem þegar er orðin og á eftir að verða.

Þannig er saumað að fólki á allar hliðar. Sumt hefur bjargað sér fyrir horn með því að fá sér krítarkort fyrir jólavertíðina. En það er skammgóður vermir, því að syndagjöldin koma síðar og þá er kreppan orðin harðari.

Í þessum mikla vanda verður æ fleiri hugsandi mönnum litið til rúmlega eins milljarðs króna, sem samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að renna til niðurgreiðslna á kjöti og mjólkurvörum. Á því sviði er örlætið enn í hámarki.

Bent hefur verið á, að illa stöddu barnafólki kæmi betur að fá fjölskyldubætur en að njóta niðurgreiðslna. Fjölskyldubætur má nota til kaupa á ódýrri vöru á borð við fisk og kornmat, en niðurgreiðslur eru bundnar við rándýra vöru.

Til þess að þetta sé unnt þarf að lögleiða hinn nýja vísitöluútreikning, sem þegar er tilbúinn og byggist á nýlegri neyzlukönnun. Þar vega kjöt og mjólkurvörur ekki óeðlilega þungt og eru því ekki lengur ódýr leið til vísitölufölsunar.

Um leið er engin furða, þótt spurt sé, hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin hafi í kreppunni og niðurskurðinum efni á að verja 8.4% fjárlagafrumvarpsins í hvatningu til aukinnar offramleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum.

Kreppan hefur ekki verið og verður ekki umflúin. Samt er ekki ástæða til að hleypa henni með fullum krafti á þá, sem minnst hafa efnin og þyngst heimilin. Á slíkum tímum er brýnna en endranær að draga úr fóðrun gæludýra ríkisjötunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV