Saumað að tóbaki

Greinar

Fimmti stærsti tóbaksframleiðandi Bandaríkjanna hefur sætzt á að greiða sem svarar hundruðum milljóna króna í skaðabætur í máli gegn stærstu tóbaksframleiðendunum, sem sextíu lögmannastofur höfðuðu fyrir hönd allra þeirra, sem hafa ánetjast tóbaksfíkninni.

Málshöfðunin byggist á, að tóbaksframleiðendur hafi stjórnað nikótínmagni í tóbaki og haldið fram röngum upplýsingum um vanabindandi áhrif tóbaks. Hún var studd nýlegum játningum fyrrverandi starfsmanna tóbaksfyrirtækja og leyniskjölum fyrirtækjanna.

Þetta er í fyrsta skipti sem bilun verður á eindreginni samstöðu tóbaksfyrirtækjanna gegn hugmyndum um skaðsemi tóbaks. Þau hafa hingað til varið sig með klóm og kjafti færustu lögmanna og ekki sparað að styrkja framboð bandarískra þingmanna til að gera þá háða sér.

Tóbaksframleiðandinn Liggett er ekki búinn að bíta úr nálinni. Fyrirtækið hefur ákveðið að ganga til samninga við fimm ríki, Florida, Massachusetts, Minnesota, Mississippi og West Virginia, sem hafa krafizt greiðslu kostnaðar við heilsugæzlu reykingafólks.

Þriðja skýið á himni tóbaksframleiðenda er sjálft bandaríska dómsmálaráðuneytið, sem er að undirbúa persónuleg málaferli gegn stjórnendum tóbaksfyrirtækja fyrir af hafa skaðað heilsu fólks og hagsmuni hlutafjáreigenda með fölsuðum upplýsingum um skaðsemi tóbaks.

Meðal þess, sem tóbaksframleiðendur eru sakaðir um, er að hafa fjármagnað rannsóknastofnanir og gert að stofnunum almannatengsla í sína þágu. Svo langt eru mál þessi komin, að nokkrir helztu forstjórar tóbaksfyrirtækja hafa ráðið sér fræga verjendur glæpamanna.

Öll ber málin að sama brunni. Vísindalega er orðið sannað, að tóbak er vanabindandi eiturlyf. Tóbaksfyrirtækin hafa falsað rannsóknir og haldið fram röngum stæðhæfingum gegn betri vitund. Þau bera því ábyrgð á heilsu fólks, sem trúði áróðri og auglýsingum þeirra.

Nú er ekki lengur spurt um, hversu mikla milljarða þetta muni kosta tóbaksfyrirtækin. Vaxandi líkur eru á, að forstjórar þeirra og helztu sérfræðingar almannatengsla verði að sæta langri fangelsisvist fyrir persónulega aðild að lygavef tóbaksfyrirtækjanna.

Enda liggur í augum uppi, að margir sitja lengi inni í Bandaríkjunum fyrir minni sakir en að hafa með framleiðslu eiturlyfs og fölsun upplýsinga skaðað heilsu milljóna manna og valdið stórtjóni öllum þeim, sem kosta lækningu krabbameins og annarra tóbakssjúkdóma.

Hugsanlegt er, að tímabundinn afturkippur komi í suma þætti baráttunnar gegn tóbaksfyrirtækjunum, ef repúblikanar, sem eru skjólstæðingur tóbaksfyrirtækjanna, ná völdum í stjórnarráðinu næsta vetur og segja dómsmálaráðuneytinu að fara hægar í sakirnar.

Ekkert fær þó stöðvað framsókn málstaðarins, því að hún streymir í svo mörgum kvíslum, að tóbaksfyrirtækin fá ekki við allt ráðið. Það sýnir dómsátt Liggett og lögmannastofanna sextíu. Tóbak er réttilega á hraðri leið efst á skrá hættulegustu eiturlyfja nútímans.

Þegar svona er komið, fer að vakna spurning um persónulega ábyrgð þeirra, sem dreifa tóbaki, til dæmis yfirmanna íslenzka fjármálaráðuneytisins og forstjóra Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins. Lifa þeir ekki á því að dreifa eiturlyfi, sem veldur hrikalegum vandræðum?

Hverjir bera raunar ábyrgð á, að leyft skuli vera að selja vanabindandi eiturlyf á hundruðum sölustaða hér á landi, þar sem fólk er að kaupa hversdagsvöru?

Jónas Kristjánsson

DV