Fyrir helgina skýrði gáfaður formaður stjórnmálaflokks frá því, að rétt væri að “banna” okrið. Ef hann hefði verið enn gáfaðri, hefði hann bætt við tillöguna ákvæði um að banna glæpi yfirleitt. Svona einfaldur getur heimur lýðskrumaranna verið.
Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að reyna að hafa hemil á okri eins og öðrum glæpum. Það gerist bezt með því að byrja á að gera sér grein fyrir jarðveginum, sem fær okur til að blómstra. Með því að flytja burt jarðveginn er hægt að draga úr okri.
Okur þrífst vegna þess, að fórnardýr okurlánara hafa ekki aðgang að lánsfé eftir eðlilegum leiðum. Og þau hafa ekki aðgang að lánsfé, af því að of lítið er til af því. Og loks er of lítið til af því, þar sem vextir hafa lengi og til skamms tíma verið lágir og jafnvel öfugir.
Við skulum spá í ástandið, sem væri, ef vextir væru lengi búnir að vera jákvæðir, og sem verður, þegar þeir hafa lengi verið jákvæðir og helzt nokkuð háir. Við fáum innsýn í þetta ástand með því að skoða sparnað þjóðarinnar á undanförnum hávaxtamánuðum.
Allur peningalegur sparnaður nam 49% af landsframleiðslu árið 1980. Nú er hann kominn upp fyrir 72% af landsframleiðslu. Talið er, að launþegar eigi 80-90% af þessu og ýmsir sjóðir afganginn. Við skulum því ekki gleyma hag launþega af háum vöxtum.
Enn brýnna er að gera sér grein fyrir, að þetta þýðir, að bankar og sparisjóðir fyllast smám saman af sparifé. Meðan svo er, færumst við nær jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar fjármagns. Æskilegt er, að sú þróun fái að gerast sem hraðast.
Búast má við, að vextir verði jákvæðir, en lágir, þegar jafnvægi er komið milli þeirra, sem geta lánað fé, og hinna, sem vilja fá fé að láni. En þangað til má búast við, að vextir þurfi að vera hærri að raungildi en í löndum, þar sem meira framboð er af fé.
Því nær, sem við færumst þessu jafnvægi, þeim mun meira þrengjum við að okrinu. Ef bankar, sparisjóðir og aðrar venjulegar lánastofnanir geta þjónað allri eðlilegri lánsfjárþörf, á okrið ekki annað svigrúm eftir en óheilbrigð lán, lán, sem ekki verða endurgreidd.
Þegar lýðskrumarar í hópi stjórnmálamanna eru að heimta lækkaða vexti. eru þeir um leið að heimta aukið ójafnvægi og meira okur. Þegar þeir eru að heimta, að takmarkað fjármagn sé eyrnamerkt til ýmissa gælusviða, svo sem landbúnaðar, og með sérstökum vildarkjörum, eru þeir að heimta aukið ójafnvægi og okur.
Ef ráðamenn okkar bera gæfu til að leyfa þróuninni að stefna í átt til lánsfjárjafnvægis og hruns okurmarkaðarins, geta þeir samt reynt að milda afleiðingarnar af því, að raunvextir eru á meðan í hærri kantinum. Þeir geta til dæmis veitt húsbyggjendum skattaafslátt af vaxtagreiðslum.
Sumir stjórnmálamenn okkar vita um mikilvægi vaxta, en telja kjósendur sína svo heimska, að vænlegt sé að heimta lægri vexti og “bann” við okri. Aðrir skilja ekki einu sinni, hvaða hlutverki vextir gegna. Það er eins og þeir haldi, að peningum rigni af himnum ofan.
Almenningur hefur vald til að útvega lánsfé í eðlilegar lánastofnanir og til að sauma að okurmarkaðinum. Það gerir hann með því að fá stjórnmálamenn til að skilja, að þeir græði ekki fylgi á andstöðu við vexti.
Jónas Kristjánsson
DV