Saurgerlasaga

Greinar

Nýlega var sendur hingað dýralæknir frá Evrópubandalaginu vegna hugsanlegrar sölu íslenzks dilkakjöts til Vestur-Evrópu. Hann skoðaði þrjú hin beztu af fimmtíu sláturhúsum landsins og taldi ekkert þeirra þriggja nógu gott að viðhaldi, aðstöðu og búnaði.

Okkar kröfur eru vægari, því að sautján sláturhús hafa löggildingu til að slátra sauðfé fyrir innlendan markað. Þau eru mjög afkastamikil, enda telur sláturhúsanefnd, að þau geti annað allri sauðfjárslátrun í landinu og raunar þótt víðar væri leitað.

Ýmsir þröngir sérhagsmunir valda því, að tvöfalt fleiri sláturhús til viðbótar, eða 33 alls, hafa undanþágu til rekstrar, þótt þau séu ekki frambærileg samkvæmt hinum vægu heilbrigðiskröfum, sem hér eru gerðar. Undanþágur hafa hreinlega verið veittar á færibandi.

Samanlögð afköst hinna samtals fimmtíu sláturhúsa landsins eru 43.450 fjár á dag. Í fyrra jafngilti það 19 daga notkun að meðaltali á ári. Þessi lélega nýting afkastagetunnar stuðlar að háum fjármagns- og rekstrarkostnaði og gerir slátrun afar dýra hér á landi.

Lýsing sláturhúsanefndar á undanþáguhúsunum er löng og ekki fögur. Víða er slátrað í gömlum kofum, jafnvel timburkofum, eða í fiskverkunarhúsum, sem tímabundið er breytt í sláturhús, með skaðlegum áhrifum á hvort tveggja, fiskvinnsluna og slátrunina.

Undanþágurnar eru veittar með pólitísku handafli. Stundum tregðast dýralæknar staðarins og yfirdýralæknir við að veita leyfin. Þá knýja þingmenn kjördæmisins landbúnaðarráðherra til að kreista út undanþágu. Það gerðist til dæmis í haust í Vík í Mýrdal.

Sláturhúsið á Bíldudal í Arnarfirði er hins vegar svo lélegt, að ráðherra treysti sér ekki til að keyra yfir dýralæknana, enda eru aðeins 30 kílómetrar frá Bíldudal til löggilts sláturhúss á Patreksfirði. Vegna þessa hafa nokkrir þingmenn gengið berserksgang við Austurvöll.

Undir forustu Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Matthíasar Bjarnasonar var í skyndi búið til frumvarp til sérstakra laga um þetta hús. Ráðgert var að keyra málið í gegn á einum sólarhring með því að beita afbrigðum. Fjölmiðlar hafa skýrt rækilega frá gangi málsins.

Sem betur fer sáu ýmsir aðrir alþingismenn, að mál þetta var Alþingi til hinnar mestu vansæmdar. Þess vegna fékk Bíldudalsfrumvarpið ekki þann forgang, sem ráðgerður var, og málið féll á tíma. Nú er sauðfénu ekið skamman veg til slátrunar á Patreksfirði.

Upphlaupið skilur hins vegar eftir óbragð í munni. Það hefur hreyft ýmsum spurningum, sem ekki hefur verið svarað. Er til dæmis rétt hjá sumum þingmönnum, að sláturhús kaupfélaga megi að mati dýralækna vera skítugri en hin, sem eru í eigu hlutafélaga.

Þá er ekki síður athyglisvert, að í umræðunni á Alþingi taldi enginn þingmanna sig knúinn til að ræða málið frá sjónarhóli neytenda og með hagsmuni þeirra í huga. Af 63 þingmönnum voru margir fúsir að þjóna sérhagsmunum, en fáir fúsir að þjóna neytendum.

Í rannsókninni, sem væntanlega siglir í kjölfar upphlaupsins, verður vonandi fjallað um, hvort eftirlit með sláturhúsum og leyfisveitingar þeirra séu eða eigi að vera fyrir neytendur eða einhverja aðra og þá hverja. Einnig hvers konar handalögmál stjórni undanþágum.

Þótt málið hafi til þessa verið Alþingi til vansæmdar, er hægur vandi að veita umræðunni framvegis í þann farveg, að leiði um síðir til heilla fyrir landsmenn.

Jónas Kristjánsson

DV