Framkvæmdasýsla ríkisins er nýleg stofnun, sem er að láta reisa Hæstaréttarhús fyrir lægri upphæð en sem nemur kostnaðaráætlun. Það gerist meðal annars með því að gera hönnuði hússins ábyrga fyrir verki sínu og lækka greiðslur til þeirra, ef kostnaður hækkar.
Húsameistari ríkisins er gömul stofnun í andaslitrunum. Hún er þekkt fyrir dýrar byggingar og mikinn hönnunarkostnað, svo sem sýna endurbætur á Bessastöðum, sem kosta meira en milljarð og fela í sér meira en hundrað milljónir til misjafnlega heppnaðrar hönnunar.
Húsameistari ríkisins áætlaði nýlega, að stækka þurfi Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli fyrir einn milljarð króna og þar af 400 milljónir beinlínis vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Schengen-samkomulaginu um afnám vegabréfaskyldu á ferð milli landa í Vestur-Evrópu.
Framkvæmdasýsla ríksins, sem hefur reynzt mun ábyrgari stofnun, áætlar hins vegar, að heildarkostnaður verði 400 milljónir og þar af vegna aðildarinnar ekki nema 150 milljónir, sem er ekki mikið meira en sem nemur hönnunarkostnaði alls dæmis Húsameistara.
Þessi talnamunur skiptir miklu máli, því að 150 milljónir eru ekki hátt verð á aðgöngumiða okkar að Schengen-samkomulaginu, sem kemur í veg fyrir, að við þurfum að taka upp vegabréf í ferðum um Norðurlönd og víkkar vegabréfafrelsi okkar til meginhluta Vestur-Evrópu.
Aðild að samkomulaginu er líka mikilvægt innlegg í viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Með góðri aðild að vegabréfasamkomulaginu sýnum við, að við eigum heima í Evrópu og fáum væntanlega meiri forgang en ella, þegar kemur að inntöku nýrra ríkja.
Saman við þetta blandast óbeinn ríkisstyrkur til Flugleiða vegna tengiflugstefnu fyrirtækisins, sem felur í sér, að afgreiða þarf allt flug á tveimur tímapunktum dagsins, snemma á morgnana í ferðum austur um haf og síðdegis í endurkomum véla og ferðum vestur um haf.
Ef flugið dreifðist sómasamlega yfir daginn, þyrfti ekki einu sinni að stækka núverandi flugstöð til að fá aðild að Schengen-samkomulaginu. Nýting flugstöðvarinnar er afar léleg, því að þar er annað hvort verið að afgreiða margar flugvélar í einu eða alls engar.
Með mismunandi afgreiðslugjöldum eftir tímum dagsins getur stjórn Leifsstöðvar dreift álaginu og komið í veg fyrir stækkun. Sú ákvörðun, að haga stærð og rekstri stöðvarinnar á þann hátt, að allt sé gert í skyndingu tvisvar á dag, er bara óbeinn styrkur til Flugleiða.
Hefðbundið er, að ríkið tekur að sér að sjá um innri uppbyggingu í samgöngumálum með því að leggja vegi og flugvelli og reisa flugstöðvar, sem koma öllum að gagni. Ekki felst í þessu hlutverki, að ríkið þurfi að borga fyrir sérþarfir eins fyrirtækis umfram aðra aðila.
Flest fyrirtæki þurfa sjálf að greiða fyrir sértæka fyrirgreiðslu hins opinbera. Vel getur verið, að Flugleiðir séu svo yndislegar, að þær eigi skilið ríkisstyrk til að geta afgreitt allar millilandaflugvélar sínar í einni kippu á sama tíma, en þá á að kalla hlutinn réttu nafni.
Í ráðagerðum um stækkun Leifsstöðvar á því að segja, að 150 milljónir séu vegna Schengen-samkomulagsins og 250 milljónir króna séu ríkisstyrkur til Flugleiða vegna afgreiðslukerfis þeirra. Á sama hátt á að skipta auknum árlegum rekstrarkostnaði milli þessara tveggja verkefna.
Aukinn mannafli ríkisins til afgreiðslu 500 komufarþega að vestan á einum klukkutíma á sólarhring er fyrst og fremst nauðsynlegur vegna áætlunarkerfis Flugleiða.
Jónas Kristjánsson
DV