Seðlabankanum að kenna

Greinar

Seðlabankinn ber ábyrgð á skjótfengnum tekjum nokk-urra aðila, sem stunduðu öruggt gjaldeyrisbrask áður en markaðsskráning gengis var tekin upp um mánaðamótin. Fyrir þann tíma var gengisskráning bankans svo barnaleg, að spákaupmenn í gengi áttu auðveldan leik.

Um langt árabil hefur verið lagt til í leiðurum DV, að Seðlabankinn hætti að skrá þykjustugengi sitt og gefi gengisskráningu gjaldmiðla frjálsa. Þetta hefur nú loksins gerzt að nokkru, en aðeins vegna þess að komið hefur í ljós dæmi um stórfellda brotalöm í kerfinu.

Raunar var það fréttastofa Reuters, sem skráði gengi gjaldmiðla fyrir Seðlabankann. Síðdegismat Reuters á stöðu gjaldmiðla var notað í Seðlabankanum við opnun gjaldeyrisdeilda morguninn eftir. Þeir, sem áttuðu sig á þessu, gátu notað svigrúmið til gróðamyndunar.

Spákaupmenn notuðu upplýsingar fjármálaþjónustu Reuters til að færa milli gjaldeyrisreikninga fyrir lokun bankanna og biðu svo í rólegheitum eftir gróðanum, sem birtist í síðbúinni gengistöflu Seðlabankans morguninn eftir. Þetta var nærri gulltrygg spákaupmennska.

Athyglisvert er, að viðskiptabankarnir, sem höfðu tapað stórfé á þessu um árabil, skyldu ekki átta sig fyrr en á þessu ári. Það er gott dæmi um, að þeir eru ekki nógu vel reknir, svo sem útlánastefna þeirra og hrikalegar afskriftir hafa einnig sýnt á undanförnum árum.

Alvarlegast er þetta mál þó fyrir Seðlabankann. Það er stofnun, sem aðalbankastjórinn töfraði upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum og gerði bókstaflega að stærsta virki blýantsnögunar í þjóðfélaginu. Þar sitja um 150 manns með 600 milljón króna árlegum kostnaði.

Seðlabankinn hefur haft einkar óljós verkefni og sinnt þeim illa. Hann hefur séð um tilfærslu á fjármagni af almennum lánamarkaði yfir á sérréttindaborð stjórnvalda, með milljarðatjóni fyrir þjóðarbúið. Og hann hefur þótzt vera að skrá gengi krónunnar í alvöru gjaldmiðlum.

Nú hefur komið í ljós, að Seðlabankinn framkvæmdi þessa gengisskráningu með því að nota síðdegistölur Reuters, liggja á þeim í um það bil sautján klukkustundir og birta þær síðan að morgni. Seðlabankinn afsalaði þannig gengisskráningarhlutverkinu í hendur Reuters.

Þetta gaf gjaldeyrisbröskurum það svigrúm, sem þeir þurftu til að græða á tá og fingri, í fyrsta lagi á kostnað bankanna og síðan óbeint á kostnað viðskiptavina bankanna, er þurfa að borga brúsann með óheyrilegum vaxtamun, sem er einsdæmi meðal auðþjóða heims.

Frammistaða Seðlabankans á þessu sviði kemur ekki á óvart. Þetta er ekki bara gagnslaus stofnun, heldur beinlínis skaðleg. Við þurfum enga stofnun til að skrá gengi, sem á að skrá sig sjálft, og enga stofnun til að gera peninga arðminni með því að taka þá af markaði.

Við getuleysið í meðferð mála, sem virki blýantsnagara hefur sankað að sér, bætist svo fordæmið, sem Seðlabankinn hefur löngum gefið stjórnendum í bankakerfinu, þar sem sameinast lífsstíll stórbokka og getuleysi í starfi. Seðlabankinn hefur leitt fínimannsleikinn.

Veruleikafirring bankastjóra og bankaráðsmanna, sem birtist í, að bankar reka saklaust láglaunafólk úr starfi tugum samam, en hlífa hverjum einasta stórbokka og fást ekki einu sinni til að fella niður laxveiðiferðir þeirra, á hornstein sinn í sandkassa Seðlabankans.

Gengisbraskið var lítið dæmi um þetta. Það var ekki spákaupmönnum að kenna, heldur Seðlabanka, sem gegndi ekki hlutverkum, er hann sankaði að sér.

Jónas Kristjánsson

DV