Seðlabankastjóri

Greinar

Seðlabankastjórar alvöruríkja eru yfirleitt hálærðir menn, en ekki aflóga pólitíkusar. Þetta kom greinilega fram í skrá yfir erlenda seðlabankastjóra, sem birtist hér í fjölmiðlum snemma vetrar. Þeir koma ekki blóðugir upp að öxlum úr persónupólitíkinni.

Í mestu alvöruríkjunum er seðlabankastjórinn aðeins einn. Svo er til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem traust manna á algerlega sjálfstæðum seðlabankastjóra skiptir efnahagslífið og einkum þó verðbréfamarkaðina meira máli en traust manna á sjálfum forseta landsins.

Með því að gera ráð fyrir auglýsingum eftir umsóknum um starf seðlabankastjóra gerir íslenzki löggjafinn ráð fyrir, að einhvers konar úrval eigi sér stað fyrir opnum tjöldum, svo að traust manna á embættinu megi vera mikið, eins og þar er til dæmis í Bandaríkjunum.

Ef veitendur embættisins velja eigi að síður úr eigin hópi mann, sem stendur öðrum umsækjendum langt að baki, er lausnin ekki sú, að breyta lögum á þann hátt, að óþarft sé að auglýsa starfið og hin séríslenzka spilling kotríkisins öðlist eins konar opinbera viðurkenningu.

Forsætisráðherra hefur talað eins og það sé eitthvert náttúrulögmál, að seðlabankastjórar komi úr hópi aflóga stjórnmálamanna. Þetta er rangt. Forsætisráðherra er ekki handbendi örlaganna, heldur hefur hann skipunarvaldið og getur beitt því í samræmi við góða siði.

Forsætisráðherra er ekki stikkfrí í málinu. Hann valdi Finn Ingólfsson í starfið sem hluta af samkomulagi stjórnarflokkanna um helmingaskipti í aðgangi að kjötkötlum ríkisins. Hann ber sjálfur ábyrgð á, að maður, sem ekki nýtur trausts, er orðinn seðlabankastjóri.

Iðnaðarráðaherrann hafði verið með harðskeyttustu stjórnmálamönnum landsins, hafði olnbogað sig upp valdastiga Framsóknarflokksins með því að valta yfir þekkt flokksfólk. Er hann var orðinn ráðherra, rak hann sjálfan ráðuneytisstjórann umsvifalaust úr starfi.

Slíkt er einsdæmi og hafði ráðuneytisstjórinn raunar ekki unnið sér neitt til saka. Finnur Ingólfsson vildi hins vegar skapa sér betra svigrúm í ráðuneytinu og sveifst einskis til þess. Hann gekk lengra en nokkrum ráðherra hefur dottið í hug á síðustu áratugum stjórnmálanna.

Eftir alla framgöngu sína segir ráðherrann, að sér hafi fundizt næða of mikið um stjórnmálamenn í síðustu kosningum! Hann telur sig sem sagt sjálfur mega fara fram með ofbeldi, en fer síðan að væla, þegar gerð er hríð að honum og formanni flokksins í kosningum.

Seðlabankinn er enginn staður fyrir pólitíska slagsmálahunda og ekki heldur fyrir aflóga eintök af því tagi. Að vísu er frábært að losna við iðnaðarráðherrann úr stjórnmálunum og koma honum fyrir á stað, þar sem ekki er svigrúm til pólitískra ofbeldisverka.

Eðlilegra hefði samt verið að maður á aldri ráðherrans færi út á vinnumarkaðinn og reyndi þar fyrir sér, þótt ekki nema til að sýna fram á, að hann sé ekki orðinn aflóga fyrir miðjan aldur. Með sama framhaldi verður fljótlega þurrð á feitum embættum í ríkiskerfinu.

Sem seðlabankastjóra á að ráða valinkunna og varkára, óumdeilda og virðulega háskólakennara, stjórnendur fjármálastofnana eða yfirmenn úr Seðlabankanum sjálfum, svo að þjóðfélagið telji embættið skipta miklu máli og að það sé engin skiptimynt í hrossakaupum.

Ferill ráðherrans og skipun hans í stöðu seðlabankastjóra með handafli forsætisráðherra er skýrt dæmi um, að kjósendur hafa gert Ísland að bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV