Seiðkarlafræðin gleður

Greinar

Ánægja flokksmanna með forustumenn sína virðist núna vera almenn á yfirborði flokkakerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki fyrr búinn að standa upp og hylla sinn mann, er forustumenn Framsóknar- og Alþýðuflokks hlutu einnig rússneska kosningu hjá sínu liði.

Virðingin er svo mikil, að formenn Framsóknar- og Alþýðuflokks eru byrjaðir að fara í opinberar heimsóknir á víxl, eins og um erlenda þjóðhöfðingja væri að ræða. Móttökur hafa verið kurteislegar, þótt sumir hafi ekki getað dulið gremju sína að heimsókn liðinni.

Þessir vinsælu afreksformenn eiga eitt sameiginlegt. Þeir störfuðu saman, eða öllu heldur sundur, í verstu ríkisstjórn lýðveldisins, þeirri sem splundraðist í sumar, er hún hafði splundrað þjóðarhag hraðar en nokkur önnur stjórn hefur gert á síðustu áratugum.

Formennirnir hafa nú fylkt liði á nýjan hátt um sömu óheillastefnu og áður. Sjálfstæðisflokkurinn er farinn út í kuldann, en Alþýðubandalagið komið inn í hlýjuna í staðinn. Öll línurit hagfræðinnar halda óbreyttum bratta eftir þessa lítilvægu breytingu.

Á tveimur árum, frá 1987 til 1989, mun ríkissjóður stækka sneið sína af þjóðarkökunni úr 23,7% í 28,1%. Þetta er stökkbreyting á hlutfalli, sem áður rokkaði lítið milli ára og ætti raunar að vera fast. Þessi stökk breyting er helzta undirrót efnahagsvandræðanna.

Ein alvarlegasta afleiðing útþenslu ríkisins á valdaskeiði allra þessara vinsælu formanna er, að skuldir þjóðarinnar í útlöndum fara ört vaxandi og sömuleiðis skuldabyrðin. Helmingur allra skuldanna er á vegum opinberra aðila og ríkisábyrgð er á mörgum hinna.

Tvennt til viðbótar er hliðstætt í stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fór frá, og hinnar, sem tekin er við. Annað er fastgengisstefnan, sem hefur rústað sjávarútveginn og á að fá að gera það áfram. Hitt er lágvaxtastefnan, sem hefur hindrað og mun hindra sparnað í landinu.

Athyglisvert er, að allir virðast viðurkenna, að gengi krónunnar sé skráð of hátt. Á flokksþingi Framsóknar var sagt, að mismunurinn nemi 10­15%. Samt vilja menn ekki taka afleiðingunum, af því að það spillir tilraunum stjórnvalda til að falsa vísitölur og verðbólgu.

Lágvaxtastefnan er farin að hafa alvarlegar afleiðingar. Byrjað var á að lækka vexti á skuldabréfum ríkisins. Síðan hafa slík bréf ekki selzt. Nú er enn verið að lækka almenna vexti í þessari viku, þótt þeir hafi alls ekki gefið tilefni til sparnaðar að undanförnu.

Í hruni innlends sparnaðar er merkisberi ríkisstjórnarinnar fyrrverandi þjóðhagsstjóri. Hann mænir vongóður á lækkandi vísitölur, sem eru búnar til með verðstöðvun, þannig að verðhækkanir safnast fyrir í pípum efnahagskerfisins til að fá síðar útrás í offorsi.

Að einu leyti er nýja ríkisstjórnin öðruvísi en hin fyrri. Af ríkidæmi þjóðarinnar hefur hún lagt nokkra milljarða í sérstakan skussasjóð handa Stefáni Valgeirssyni. Og stjórnarformaður Sambandsins hefur þar á ofan krafizt ríkisstuðnings við kaupfélög úti á landi.

Sameiginlegt einkenni hagsstefnu þessara tveggja ríkisstjórna er það sambland af rugli og óskhyggju, sem George Bush kallaði á sínum tíma “voo-doo” hagfræði forvera síns í forsetaembætti Bandaríkjanna. Þessa tegund hagfræði mætti kalla seiðkarlafræði á íslenzku.

Ekki er hægt að búast við, að þjóðin hafi mikið gagn af stjórnmálaflokkum, sem fagna seiðkarlafræði eins ákaft og gert hefur verið á nýliðnum flokksþingum.

Jónas Kristjánsson

DV