Seinagangur Hæstaréttar

Greinar

Afkastalítill Hæstiréttur situr í fílabeinsturni og skerðir mannréttindi í landinu með því að liggja árum saman á einkamálum, þar sem smælingjarnir í landinu eru að reyna að verja rétt sinn gegn óbilgirni ágjarnra og siðlausra stofnana á borð við tryggingafélögin í landinu.

Nýlega var sagt hér í blaðinu frá máli konu, sem missti handlegg í dráttarvélarslysi fyrir átta árum. Hún vann mál gegn tryggingafélaginu í héraðsdómi. Tryggingafélagið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar, sem hefur af alkunnu tillitsleysi legið á því í tvö ár.

Konan hefur alls engar bætur fengið í þessi átta ár, af því að beðið er niðurstöðu Hæstaréttar. Hún var þrettán ára, þegar slysið varð, og hefur af fjárhagsástæðum ekki átt þá möguleika og námstækifæri á mikilvægu aldursskeiði, sem eðlilegt hefði verið, að hún ætti.

Með framgöngu sinni í þessu máli og fjölda annarra kemur Hæstiréttur beinlínis í veg fyrir, að réttlæti nái fram að ganga. Fólk treystir sér ekki til að reyna að gæta réttar síns. Stóru karlarnir, sem stjórna fáokun tryggingafélaganna, vita þetta og nota sér hömlulaust.

Tryggingafélögin tapa hverju málinu á fætur öðru í héraði. Þau áfrýja undantekningarlaust hverju einasta máli til að kúga smælingjana til uppgjafar og samninga um smánarbætur. Almenningur í landinu hefur ekki ráð á að kosta stöðug slagsmál við tryggingafélög í átta ár.

Hæstiréttur tekur þátt í þessum ljóta leik tryggingafélaganna með því að draga málin á langinn. Liggur þó í augum uppi, að markmið áfrýjana félaganna er að fresta greiðslum og draga úr líkum á, að smælingjar komist á leiðarenda. Framkoma Hæstaréttar er siðlaus með öllu.

Vinnubrögð Hæstaréttar auka réttaróvissu í landinu. Þau gera hann að skálkaskjóli auðfélaga, sem traðka á rétti smælingjanna. Við eðlilegar aðstæður mundi rétturinn fremur flýta málum af því tagi, þar sem aflsmunur og aðstöðumunur málsaðila er greinilegur.

Gerviáfrýjanir tryggingafélaga ber hiklaust að afgreiða á einni viku. Sömuleiðis ber Hæstarétti að víta lögmenn tryggingafélaga fyrir að tefja störf réttarins með því að stífla málaskrár með augljósum tilraunum til að tefja fullnustu mála, sem líkjast fyrri málum af sama toga.

Hæstiréttur hefur á ýmsan annan hátt sýnt, að hann er úti að aka í þjóðfélaginu. Einkum er ljóst, að hann hefur litið á sig sem hluta valdakerfisins í landinu og haft tilhneigingu til að draga hlut ríkisvaldsins gegn öðrum aðilum. Hann er yfirleitt hallur undir valdið.

Þekktur hæstaréttarlögmaður gaf fyrir átta árum út bók, þar sem hann rakti gang nokkurra mála fyrir Hæstarétti og benti á seinagang og ótryggt réttaröryggi hjá Hæstarétti. Af máli konunnar, sem missti handlegginn, er sýnt, að Hæstiréttur hefur ekki lært af gagnrýninni.

Hæstiréttur hefur ennfremur sætt álitshnekki, af því að óeðlilega mikið er um, að fólk, sem tapar málum fyrir honum, vinni þau síðan úti í Strasbourg eða Haag, af því að Hæstiréttur Íslands hefur ekki virt alþjóðleg mannréttindi, sem hafa hlotið lagalega staðfestingu Alþingis.

Framganga einstakra dómara hefur líka skaðað virðingu Hæstaréttar. Einn forseti hans varð frægur af gífurlegri söfnun áfengis. Annar forseti hans varð frægur af undarlegum skrifum áminningarbréfa til aðila úti í bæ. Þetta bendir til skorts á dómgreind í fílabeinsturni.

Af ávirðingum Hæstaréttar er samt sýnu verst sú, er eykur réttaróvissu þeirra, sem minna mega sína í þjóðfélaginu en þeir, sem völdin hafa. Það er seinagangurinn.

Jónas Kristjánsson

DV