Seintekinn sóðagróði

Greinar

Stjórnmálamenn og fréttamenn hafa rætt, að hversu miklu leyti tekið hafi verið tillit til “sjónarmiða Íslands” á loftmengunarráðstefnunni í Kyoto. Eiga þeir þá við, að hve miklu leyti samþykkt hafi verið, að Íslendingar fái undanþágu til að auka mengun andrúmslofts síns.

Sérstakt hugarfar þarf til að líta svo á, að það séu “sjónarmið Íslands”, að loftmengun fái að aukast meira hér á landi en annars staðar, samkvæmt sérstakri undanþágu frá Kyoto. Þetta er auðvitað hugarfar sóðans, hvort sem hann svíður undan nafngiftinni eða ekki.

Sóðarnir verja mengunina með því að segja hana hagkvæma. Með sömu rökum má segja, að ekki taki því að þvo upp heima hjá sér, af því að leirtauið verði strax skítugt aftur. Það sé óarðbær vinna að vaska upp og að það séu “sjónarmið Íslands”, að ekki sé vaskað upp.

Sóðagróðinn verður hins vegar seintekinn. Ljóst er, að reikningsdæmið er flóknara en sóðarnir vilja vera láta. Á vogarskálarnar þarf að leggja ýmsan kostnað, sem fylgir hinum séríslenzka sóðaskap, sem nú hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu á fjölþjóðaþingi í Kyoto.

Samkvæmt niðurstöðum ráðstefnunnar getur loftmengunarréttur gengið kaupum og sölum. Þess vegna mun skapast alþjóðlegt markaðsverð á rétti til loftmengunar. Á þeim forsendum er unnt að verðleggja kostnað við loftmengun frá fyrirhugaðri stóriðju á Íslandi.

Þar með hefur fengist alþjóðlegur mælikvarði á kostnað við loftmengun, sem setja þarf inn í kostnaðardæmi stóriðjunnar, jafnvel þótt þjóðin fái frían aðgang að vondu útblásturslofti upp að vissu marki, í samræmi við gengi “sjónarmiða Íslands” í sóðaskap.

Við sleppum ekki frá slíkum kostnaðarreikningi, þótt sú leið verði valin að hafna stóriðju og leggja í þess stað rafmagnskapal til útlanda. Sjónmengun og lífsgæðatap af völdum hálendisrasks orkuvera er líka kostnaður, þótt erfiðara sé að meta upp á krónu, hver hann sé.

Komið hefur fram, að mannvirki í annars ósnortnu víðerni, fela í sér lífsgæðatap þjóðarinnar og minni ferðamannatekjur en annars yrðu. Eðlilegt er, að þetta tjón af völdum orkuvera verði metið til fjár og sett inn í kostnaðardæmi fyrirhugaðra orkuvera.

Komið hefur fram erlendis, að kostnaði ríkja af völdum mengunarvarna fylgja líka hreinar tekjur. Bezta dæmið um það er Þýzkaland, sem hefur tekið forustu í umhverfismálum og selur núna búnað og þekkingu í umhverfismálum til útlanda fyrir háar fjárhæðir.

Þetta getum við líka gert. Ef við tökum til dæmis forustu í notkun vetnis í samgöngutækjum, höfum við ekki bara kostnað af framkvæmdinni, heldur einnig tekjur af sölu búnaðar og þekkingar á þessu sviði til annarra ríkja, sem skemmra verða á veg komin.

Þannig koma tekjupóstar á móti kostnaðarpóstum umhverfisverndar, ef rétt er á málum haldið. Það er því engan veginn hreint tap af hreinlæti eins og ætla mætti af tali og skrifum stjórnmálamanna og fréttamanna, sem hampa sóðaskap sem “sjónarmiðum Íslands”.

Fyrsta skrefið í rétta átt er, að menn svíði undan sannleikanum. Þegar ráðstefnan í Kyoto og niðurstöður hennar eru orðnar tilefni langra kafla í áramótagreinum talsmanna séríslenzks réttar til sóðaskapar, er ljóst, að þáttaskil hafa orðið í stöðu umhverfismála í þjóðlífinu.

Hér eftir verður ekki unnt að tefla fram fullyrðingum um arðsemi orkuvera, stóriðju, fiskiskipa og samgöngutækja, án þess að sóðakostnaðurinn sé talinn með.

Jónas Kristjánsson

DV