Íslenzkir neytendur eru bljúgari en neytendur í nágrannalöndum beggja vegna Atlantshafsins. Þeir láta sig hafa það, sem að þeim er rétt. Þeir mögla stundum í hljóði. En það er af og frá, að þeir grípi til aðgerða.
Gott dæmi um þetta er hið misheppnaða verkfall Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, þegar mótmæla átti háu bensínverði og fara í strætisvagni einn dag. Félagið hefur raunar ekki borið sitt barr eftir þá útreið.
Ekki er við að búast, að Neytendasamtökin rísi upp til mótaðgerða, þegar hagsmunir neytenda eru í húfi. Reynsla bifreiðaeigenda og fleiri dæmi sýna, að íslenzkir neytendur eru sérdeilis seinþreyttir til vandræða.
Enda er ekki kallað í Neytendasamtökin, þegar borgaryfirvöld hugleiða breytingu á reglugerð um opnunartíma verzlana. Til eru kvödd Kaupmannasamtökin og Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, helztu andstæðingar reykvískra neytenda.
Þessi samtök hafa hingað til beitt áhrifum sínum í borgarstjórn til að halda þröngum afgreiðslutíma í verzlunum. Og það eru ekki Neytendasamtökin, heldur tveir kaupmenn ódýrrar vöru og góðrar þjónustu, sem eru að sprengja kerfið.
Ekki fór heldur mikið fyrir Neytendasamtökunum, þegar upp komst um víðtæka sölu Afurðadeildar Sambandsins á skemmdu dilkakjöti frá því í fyrra. Þau mótmæltu lítillega, en lögðu síðan niður rófuna eins og ævinlega.
Afurðadeildin hafði geymt kjötið án þess að fylgjast með hitastigi í frystigeymslunni og ætlaði síðan að losna við það á kjötútsölunni. “Ríkið ber ábyrgðina, ekki Afurðasalan,” sagði svo talsmaður landbúnaðarins, þegar upp komst.
Annað afrek unnu þessir höfðingjar, þegar gamla kjötið hætti að seljast. Í fyrsta skipti í veraldarsögunni var afurð hækkuð í verði við að reynast vera skemmd! Og senn hækkar hún enn og þá upp í verð á nýju kjöti.
Ef bein væri í nefi neytenda og Neytendasamtakanna, mundi nú vera skipulagt verkfall í kaupum á unnum kjötvörum. Það er nefnilega í kjötfarsið, sem hinu skemmda kjöti á að lauma í næstu tilraun Afurðasölunnar.
En væri þetta bein í nefinu, væri þegar búið að skipuleggja slíkt verkfall, því að rannsókn hefur leitt í ljós, að helmingur unninna kjötvara er ekki neyzluhæfur vegna gerlamergðar. En neytendur yppta bara öxlum.
Í þrjú til fjögur ár hafa ráðamenn landbúnaðarins verið að skipuleggja hliðstæða einokun í eggjasölu og þeir hafa á kjöt- og mjólkurvörum. Þeir hafa nú stigið fyrsta skrefið til aðgerða með 5,3 milljónum úr kjarnfóðursjóði.
Þessari mútu til smáframleiðenda er beint gegn stóru eggjabúunum, sem hafa haldið niðri verði á eggjum. Smám saman verður komið á opinberri verðlagningu, sem auðvitað verður töluvert hærri en nú tíðkast á frjálsum markaði.
Neytendasamtökin hafa ekki tjáð sig mikið um þetta mál, enda stirðna þau yfirleitt í hvert sinn, sem hagsmunir landbúnaðarins eru í húfi. Þau sögðu ekki heldur margt, þegar forhituð neyzlumjólk reyndist full af rotnunargerlum og fúkkalyfjum.
Neytendasamtökunum er vorkunn í þessum málum og öllum öðrum, sem hér er ekki rúm til að rekja. Þau vita, sem er, að neytendurnir að baki samtakanna eru ekki reiðubúnir að snúa bökum saman, þegar landbúnaðurinn og aðrir sparka í þá.
Jónas Kristjánsson
DV