Mörkin eru óljós milli spillingar, fyrirgreiðslu og góðvildar. Sumpart eru þetta þrjú orð yfir sama málið. Orðamunurinn lýsir fyrst og fremst misjöfnum sjónarhóli fólks. Þetta hefur til dæmis komið vel fram í opinberri umræðu um pólitísk ágreiningsefni í Hafnarfirði.
Fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar og félagsráðherra naut mikils stuðnings í prófkjöri Alþýðuflokksins, þótt hann næði ekki efsta sætinu, sem hann sóttist eftir. Í prófkjörsbaráttunni birtust um hann greinar stuðningsmanna, þar sem meðal annars var lýst góðvild hans.
Góðvild lýsir sér meðal annars í greiðasemi við náungann. Þessi góðvild eða greiðasemi er yfirleitt meira eða minna sértæk. Hún beinist einkum að þeim, sem næst standa og bezt sjást, af því að þörf þeirra er ljósari en hinna, sem fjær standa og sjást illa eða alls ekki.
Góðvild og greiðasemi eru hornsteinar í frumstæðu þjóðfélagi, þar sem réttur og velferð hefur ekki náð því stigi, sem er í auðugustu ríkjum Vesturlanda. Ættin og hreppurinn voru eins konar tryggingafélag í hörðum heimi liðinna alda. Þannig þraukuðu forfeður okkar.
Nú á tímum hafa altækar aðgerðir að mestu leyst sértækar af hólmi. Lög og réttur ná í stórum dráttum jafnt til allra. Velferðin nær í stórum dráttum jafnt til allra. Við lifum í þjóðfélagi, sem telur höfuðhlutverk sitt að vera eins konar tryggingafélag fyrir lítilmagnann.
Ættin, vinirnir og hreppurinn skipta einstaklinginn miklu enn þann dag í dag. Þar gilda hinar sértæku aðgerðir áfram. Til stjórnmálamanna eru hins vegar gerðar þær kröfur í nútímanum, að þeir starfi fyrir heildina. Í raun eru þeir þó flestir á kafi í sértækum aðgerðum.
Hinir hörðustu líta á þetta sem góðvild sína og það gera líka margir fylgismenn þeirra. Þetta hefur verið áberandi í Alþýðuflokknum að undanförnu. Í öðrum tilvikum er fremur talað um fyrirgreiðslur og stjórnmálamenn tala jafnvel um sjálfa sig sem fyrirgreiðslumenn.
Þeir, sem standa næst góðviljuðum fyrirgreiðslumanni, fá svonefnda stóla, til dæmis sendiherraembætti. Í næsta hring fyrir utan fá menn stöður í ríkiskerfinu. Í þriðja hringnum fá menn svo sporslur, svo sem styrk hjá menntaráðherra eða íbúð hjá bæjarstjóra.
Fjölmiðlarnir hafa tilhneigingu til að tala um góðvilj-aðar fyrirgreiðslur ráðamanna sem spillingu. Fara þeir í því að vestrænni fyrirmynd frá útlöndum. Þar vita menn, að það, sem einn fær, fá hinir ekki. Þar er talin spilling að taka einn úr biðröðinni og þjónusta hann.
Mikill fjöldi manna er sömu skoðunar hér á landi. Þess vegna hafa fjölmiðlar nokkurn hljómgrunn, þegar þeir nefna dæmi um góðvild og fyrirgreiðslu og kalla þau spillingu. Af stuðningi kjósenda við fyrirgreiðslumenn stjórnmálanna má þó sjá, að þetta er umdeilt atriði.
Halldór Laxness lýsir þjóðarsál Íslendinga í Innansveitarkroniku og segir þar meðal annars: ,,Afturámóti klífa þeir þrítugan hamarinn til að verða við bænarstað vina og frænda, enda mundi landsbygð á Íslandi hafa lagst niður fyrir mörgum öldum ef eigi væri svo.” Dálæti margra Íslendinga á sértækum fyrirgreiðslum er arfur frá fyrri öldum, þegar hugarfar af því tagi var nauðsynlegt í lífsbaráttunni. Nú á tímum er þetta dálæti ekki lengur kostur, heldur dragbítur á vegferð þjóðarinnar inn í jafnréttis- og markaðsþjóðfélag nútímans.
Því færri sem nota orðin góðvild og fyrirgreiðslu og því fleiri sem nota orðið spillingu um hina umdeildu atburði, þeim mun lengra er þjóðin á veg komin.
Jónas Kristjánsson
DV