Sérþarfir í vistkerfinu

Greinar

Á Búnaðarþingi, sem kallað var saman til aukafundar í síðustu viku, var samþykkt að mæla harðlega gegn stjórnarfrumvarpi um sérstakt umhverfisráðuneyti. Þessi ályktun sérhagsmunahópsins felur í sér beztu meðmælin, sem umhverfisráðuneytið hefur fengið.

Mikilvægasta lagfæringin á umhverfi Íslendinga felst auðvitað í að friða móbergssvæði hálendisins fyrir ágangi sauðfjár. Þetta vita vaðmálsmenn Búnaðarþings og þess vegna segir formaður Búnaðarfélagsins, að frumvarpið gagnrýni bændur og vegi raunar að þeim.

Að vísu þarf ekki sérstakt umhverfisráðuneyti til að losa landið við aldagamla áþján vaðmálsmanna. Beinskeyttari landvernd felst í að hætta fjárhagslegum afskiptum ríkisins af hefðbundnum landbúnaði og leyfa frjálsa verzlun með innlenda og erlenda búvöru.

Þótt Búnaðarþing hafi ályktað gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um sérstakt umhverfisráðuneyti, er frumvarpið þar með ekki fullkomið. Líta má á það sem skref í átt til umhverfisverndar, en það fullnægir engan veginn þeim kröfum, sem gerðar verða í náinni framtíð.

Til dæmis er lífríki sjávar undanskilið í frumvarpinu. Það gerir ráð fyrir, að nýting fiskstofna verði áfram á valdsviði sjávarútvegsráðuneytisins. Ekki verður séð, að mun minni ástæða sé að færa hagsmunavald frá sjávarútvegsráðuneytinu en frá landbúnaðarráðuneytinu.

Raunar er heppilegt að draga afskipti umhverfismála úr öllum ráðuneytum, sem núna fjalla um slík mál. Það gildir ekki bara um sjávarútveg og landbúnað, heldur einnig um iðnað, orkuöflun, verzlun og afskipti af skipulagsmálum sveitarfélaga, svo að augljós dæmi séu nefnd.

Ófært er, að ákvarðanir, sem snerta vistfræðilega framtíð þjóðarinnar, séu teknar í hagsmunaráðuneytum atvinnuveganna. Vafasamt er raunar, að slík ráðuneyti eigi rétt á sér, því að þau eru í meira eða minna mæli ekki verkfæri þjóðarinnar, heldur hagsmunahópanna.

Þegar búið er að skera umhverfismálin af þessum ráðuneytum má sameina afganginn af þeim í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Þar geta hugsjónamenn atvinnuveganna barizt með vaðmálsmönnum fyrir áhugamálum á borð við framhald innflutningsbanns á smjörlíki.

Ekki er síður nauðsynlegt að koma samskiptum ríkis og sveitarfélaga undir hatt umhverfismála. Sóðaskapur í vaðmálsstíl er alls ráðandi í sveitarfélögum landsins. Til dæmis lætur Reykjavík úrgang borgarbúa vella upp við ströndina og fjúka yfir borgina á nýjan leik.

Einnig hafa hin einkar kærulausu borgaryfirvöld Reykjavíkur áratugum saman látið viðgangast, að rekin sé í borgarlandinu, en á framfæri ríkisins, áburðarverksmiðja, sem spýr eitri yfir borgarbúa og nágranna þeirra og bakar borgarbúum um leið sprengihættu.

Engin vitræn áform eru enn hjá stjórnvöldum um að taka upp flokkun á sorpi, endurvinnslu þess og eyðingu hættulegra efna úr því. Sérstakt umhverfisráðuneyti getur auðvitað auðveldað þjóðinni að mæta 21. öldinni með sómasamlegri skipan mála á því sviði.

Ekki er síður mikilvægt, að nýtt umhverfisráðuneyti taki upp virkar aðgerðir til að reyna að hindra losun hættulegra úrgangsefna í úthafinu. Til dæmis þarf að berjast grimmt gegn hinni fáránlegu hugmynd frá Bretlandi að varpa slitnum kjarnakljúfum í Norður-Íshafið.

En við megum vita af hyggjuviti okkar, að umhverfisráðuneyti er því betra sem hærra veina sérhagsmunastjórar á borð við Búnaðarþing og Sjálfstæðisflokk.

Jónas Kristjánsson

DV