Seta, vinna og ráðgjöf.

Greinar

Hér í blaðinu og raunar einnig í öðrum fjölmiðlum hefur komið í ljós, að fulltrúum í samninganefndum um stóriðju, svo og flestum ráðamönnum landsins, finnst lítið til koma, þótt þessir fulltrúar hafi 40-50 þúsund króna mánaðartekjur í tengslum við setuna í nefndunum.

Nefndamenn segja hver um annan þveran, að þeir hafi þrælað fyrir þessum tekjum. Sumir segjast hafa misst af sínu venjulega kaupi á meðan og jafnvel misst viðskiptavini. Einn benti sérstaklega á sálrænan þrýsting, – ætlazt hafi verið til, að þeir næðu árangri í samningum.

Eini ráðamaðurinn í landinu, sem hefur gert athugasemdir, er Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra. Hann óskaði skýringa á ríkisstjórnarfundi. Þær fengust ekki þá, þar sem iðnaðarráðherra var fjarverandi. Hann hefur hins vegar á öðrum vettvangi vísað öllu frá sér.

Sverri Hermannsson iðnaðarráðherra gagnrýndi harðlega í vetur kostnað Sjóefnavinnslunnar við tækniráðgjöf. Kvartaði hann um vonda hegðun þess, sem hann kallaði “verkfræðingastóð”. Mátti skilja hann á þann veg, að í því kerfi væru menn að hygla hver öðrum á ýmsa vegu.

Full ástæða væri fyrir Sverri að taka samninganefndamálið mun harðari tökum en Sjóefnavinnslumálið. Í nýja málinu eru menn ekki aðeins að hygla öðrum, heldur einkum sjálfum sér. Og síðan halda þeir því fram, að þetta sé að frumkvæði ráðuneytis Sverris sjálfs.

Fyrst eru þessir menn kosnir í nefnd. Þar sem þeir ráða ekki við starfið, fá þeir sér starfsmenn, sem eru þeir sjálfir. Þar sem málið gengur ekki upp, verða þeir að fá sér ráðgjafa til viðbótar. Þessir ráðgjafar eru, eins og starfsmennirnir, nefndamennirnir sjálfir.

Þannig hefur samninganefndagengið í fyrsta lagi setið í nefndum. Í öðru lagi hefur það unnið í nefndum. Og í þriðja lagi hefur það veitt sér góð ráð í nefndum. Þannig tuttugufalda menn tekjurnar, sem þeir gengu að í upphafi, þegar þeir tóku sæti í nefndunum.

Þessi mikla vinna nefndamanna hefur samt ekki borið mikinn árangur. Sorglegasta dæmið er síðasti samningurinn við Alusuisse. Þar sömdu þeir um orkuverð, sem var langt undir því, er við mátti búast. Raunar varð niðurstaðan mikið áfall fyrir stóriðjustefnu á Íslandi.

Stundum var eins og nefndarmenn legðu meiri vinnu í að reka áróður fyrir þjóðinni um, að niðurstaðan væri ekki eins afleit og flestir töldu hana vera. Ef til vill er sú vinna innifalin í tekjum þeirra af setu í nefnd, vinnu í nefnd og ráðgjöf í nefnd.

Ekki tók betra við í samningnum um inngöngu Sumitomo í járnblendifélagið. Sá samningur gekk einkum út á, að japanska fyrirtækið tæki hlut af hinu norska Elkem. Til þess að hjálpa Elkem í þessu þóttust nefndarmenn verða að halda niðri verði á raforku til Grundartanga.

Ef greiða á stórar fjárhæðir fyrir setu í slíkum samninganefndum, er betra að hafa þær enn hærri og greiða þær erlendum fagmönnum, sem kunna til verka í samningum. Ekki greiða þær neinum, sem fara illilega halloka í hverjum samningnum á fætur öðrum.

Eigi menn samt mikið fé skilið fyrir setu, vinnu og ráðgjöf í nefndum, er rétt, að um slíkt sé fjallað á opinn og heiðarlegan hátt, en ekki í einkapukri nefndarmanna og í samsæri þeirra og ráðuneytis. Til eru mörk milli siðferðis og skorts á siðferði.

Jónas Kristjánsson

DV