Setrið

Veitingar

Setrið á Holiday Inn býður frumlega matreiðslu, sem tekst oft, en ekki alltaf. Hugmyndaflugið er glannalegt á köflum, einkum í bragðsterkum sósum. Ég veit ekki, hvort þessi matreiðsla hentar óðviðbúnum hótelgestum, en hún er skemmtileg tilbreytni fyrir þá, sem eru þreyttir á staðlaðri matreiðslu íslenzkra veitingahúsa.

Matsalurinn er ópersónulegur og allt að því kuldalegur, hæfir ekki hressilegri matreiðslunni. Betra er að koma í hádeginu, því að þá er snætt fyrir framan salinn, nánast í anddyrinu. Þar er hönnun innréttinga líflegri og andrúmsloftið næstum fjörugt, þegar gestkvæmt er á hótelinu. Á báðum stöðum eru stólar þægilegir.

Þjónusta er skóluð og góð, en dálítið spör á undirbúning salarkynna. Dauflegra er að ganga til borðs milli auðra borða en uppábúinna, eins og ekki sé von á fleiri gestum. Þá er ekki við hæfi í dýru veitingahúsi að bera smjör á borð í álpappír eins og þetta sé í flugvél. En þurrkurnar eru úr dúki í hádegi sem að kvöldi.

Í hádeginu kostar réttur dagsins með súpu og kaffi 1.000 krónur og 1.700 krónur á kvöldin. Meðalverð þriggja rétta af matseðli er 3.235 krónur, sem er nálægt hefðbundnu hótelverði í borginni. Á vínlista er töluvert af fínu og dýru víni, en hóflega verðlögð eru þar í bland.

Súpa dagsins var í eitt skiptið afar heit sveppasúpa með of sterku vínbragði. Í annað skiptið var hún afar heitt kjötseyði með hæfilegu jafnvægi í bragði. Sveppasúpan var dæmi um, að á þessum stað er stundum farið yfir mörkin í áherzlu á bragðsterk hliðaratriði.

Reykt villigæsabringa er gamalkunnur þáttur matseðilsins, góður réttur. Hún var fallega sett á hlaða af þráðargrænmeti, með ristuðum sesamfræjum á annarri hliðinni. Humarhalar í forrétt voru aðeins þrír talsins, lagðir í blaðdeig, bornir fram með steiktum laukþráðum og sterkri humarsósu, kostuðu heilar 1790 krónur eins og raunar líka rauðsprettutoppur á kampavínsfrauði.

Í hádeginu voru fiskréttir fallega settir á disk, en hversdagslega um kvöldið. Í öllum tilvikum var fiskurinn hæfilega lítið eldaður. Djúpsteikt ýsa dagsins var góð, borin fram með ekki nógu fersku jöklasalati, frönskum kartöflum, sterkri og góðri karrísósu, steiktum grænmetisþráðum og hrásalati. Smálúða dagsins í Rósinbergssósu var líka góð, borin fram með hvítum kartöflum og eggjasósu, sem í þessu tilviki var mild á bragðið.

Smjörsteiktur skarkoli með sítrónu og kapers var hressasti rétturinn. Rauðsprettan var góð, en yfirgnæfð af meðlæti. Hún synti í smjöri og kapers í kringum stóran hrauk af hituðum sítrónubátum, sem stjórnuðu algerlega heildarbragði réttarins. Grænmetið var léttsoðið og gott, nema sveppirnir, sem voru mauksoðnir. Þannig fer, þegar allt grænmeti fær jafna eldun án tillits til tegunda.

Lambarifjakjöt var afar gott, nákvæmlega tímasett í eldun, ljósrautt að lit. Með því var steiktur klatti af kartöfluþráðum og afar sterk salvíusósa, blönduð steinselju.

Ostakarlotta var osta- og haframjölskaka með sterkri brómberjasósu, sæmilegur eftirréttur. Eplabitar og rúsínur, hitað í móti, með góðri kanilsósu, var fyrirtaks eftirréttur. Góða hundasúrukrapið fæst ekki lengur.

Jónas Kristjánsson

DV