Skemmtilegt væri að fá svör við nokkrum spurningum um stjórn borgarinnar. Þetta eru spurningar, sem oft hafa verið settar fram, en enginn reynt að svara, hvorki flokkarnir, sem hafa borið ábyrgð á stjórn Reykjavíkurlistans á borginni í rúman áratug, né Sjálfstæðisflokkurinn, sem vill nú taka við.
Í fyrsta lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvað eigi að gera við báknið, sem Reykjavíkurlistinn hefur framleitt. Þar sem áður var einn starfsmaður, svo sem borgarlögmaður, borgarhagfræðingur og félagsmálastjóri, eru nú komnar heilar stofnanir, hver á sínu sviði. Mannaflinn hefur margfaldazt.
Í öðru lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort halda eigi áfram að reyna að gera leikskóla ókeypis, svo sem borgin lofaði fyrr á þessu ári. Hafa útsvarsgreiðendur efni á þessu og þá hvernig? Engin fjárhagsáætlun var framleidd um þetta og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið afstöðu.
Í þriðja lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort halda eigi áfram að tosa fólk upp í strætó með því að spilla fyrir akstri einkabíla. Tregða Reykjavíkurlistans við að koma upp mislægum gatnamótum á horni Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar er skólabókardæmi um skaðlega kreddufestu.
Í fjórða lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort halda eigi áfram að ögra íbúum í löngu byggðum hverfum með ráðagerðum um að þétta byggð með því að þrengja að fólki og spilla útsýni þess. Hafa arfaflokkar Reykjavíkurlistans eða Sjálfstæðisflokkurinn marktæka stefnu á þessu sviði?
Í fimmta lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort byggja eigi fjarlæg hverfi um holt og hæðir að bandarískri fyrirmynd eða byggja háhýsi hvert ofan í öðru að baki borgarmúra að evrópskri fyrirmynd. Frambjóðendur tregðast við að gefa skýr svör um helztu forsendu borgarskipulags.
Í sjötta lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort arfaflokkar Reykjavíkurlistans eða Sjálfstæðisflokkurinn eru reiðubúnir að leggjast á hugmyndafræðinga borgarskipulags, sem hafa lengi rekið eigin skipulagsstefnu, án þess að kjörnir fulltrúar borgarbúa hafi getað stungið við fótum.
Betra væri að fá svör við slíku í staðinn fyrir ítrekaða þvælu um, hvort menn séu of ungir eða of gamlir, nógu karllegir eða nógu kvenlegir til að vera borgarstjórar.
DV