Sextán óhæfir leiðtogar

Greinar

Hugmyndafræðin að hörmulegri útreið Vesturlanda í Bosníu liggur einkum grafin í utanríkisráðuneytum Bretlands og Frakklands. Þar starfa óvenjulega óhæfir menn, sem ímynda sér meðal annars, að harðneskjuleg viðhorf séu á einhvern hátt í sjálfu sér hagkvæmari en önnur.

Þessir hugmyndafræðingar náðu því ekki, að framkvæmd viðhorfanna leiðir til atburðarásar, sem getur orðið upphafsaðila afar óhagkvæm, svo sem Bosníuruglið sýnir greinilega. Það skerðir stórlega möguleika Vesturlanda til að hafa áhrif á gang veraldarsögunnar.

Óhæfir hugmyndafræðingar hafa ekki verið og verða ekki dregnir til ábyrðar fyrir handarbakavinnuna í Bosníu. Það verða hinir pólitísku yfirmenn í stólum utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Þeir verða hengdir í almenningsálitinu fyrir ráðgjöfina, sem þeir þágu.

Þetta fer að skipta máli nú, þegar komið er í ljós, að stefna Vesturlanda í Bosníumálinu leiðir til stórminnkaðs áhrifavalds þeirra í umheiminum; þegar fólk fer að spyrja, hvers vegna ekki var tekið mark á aðvörunum fyrir hálfu öðru ári, er ódýrara var að stöðva Serba.

Fremstir í flokki þeirra, sem ábyrgð bera á rugli Vesturlanda, eru Major forsætisráðherra og Hurd utanríkisráðherra Bretlands. Í svipaðri röð kemur Mitterrand Frakklandsforseti, sem fer með raunverulega stjórn utanríkismála í Frakklandi vegna stöðu forsetavaldsins.

Af minni spámönnum í Evrópu bera mesta ábyrgð þeir Gonzales, forsætisráðherra Spánar, og forsætisráðherrar Grikklands, fyrst Mitsotakis og síðan Papandreou. Grikkirnir hafa af trúarbragðaástæðum séð til þess, að viðskiptabannið á Serbíu hefur verið hriplekt.

Í Bandaríkjunum hvílir ábyrgðin á forsetunum, Bush og Clinton, þótt ekki megi gleyma Christopher og Perry, ráðherrum utanríkis- og varnarmála. Í raun veldur ruglið Bandaríkjunum mestu tjóni, því að þau höfðu úr hæstum sessi að falla sem fyrrverandi heimsveldi.

Ráðamenn Bandaríkjanna hafa sér ekki til afsökunar vonda ráðgjöf úr utanríkisráðuneytinu. Þar var mörgum ljóst, að stefnan mundi stórskaða Bandaríkin. Þeir létu í sér heyra og nokkrir lykilmenn ráðuneytisins sögðu hreinlega af sér, þegar ekki var hlustað á þá.

Ekki má gleyma þremur fjölþjóðastofnunum, sem hafa smækkað að marki af ruglinu í Bosníumálinu. Fremst fer þar Atlantshafsbandalagið með Wörner í broddi fylkingar. Síðan koma Sameinuðu þjóðirnar með Ghali í fararstjórn og Evrópusambandið með Delors sem oddvita.

Vandræði Atlantshafsbandalagsins eru sýnu mest, enda er þar um að ræða hernaðarstofnun, er hefur reynzt alveg óhæf til að hefta útþenslustefnu fámennra hópa villimanna af serbneskum toga og það á svæði, sem var utan við heimsveldi Sovétríkjanna sálugu.

Loks eru það sáttasemjararnir þrír, sem ráku málið af annáluðum barnaskap, þeir Owen og fyrst Vance og síðan Stoltenberg. Þeir áttu mikinn þátt í að telja Vesturlöndum trú um, að með kjaftavaðli og sviknum loforðum fengist niðurstaða, sem Vesturlönd gætu sætt sig við.

Afskipti þeirra manna, sem hér hafa verið nefndir, og líklega nokkurra í viðbót, hafa leitt til þess, að Vesturlandaþjóðir hafa glatað trú á sjálfar sig og Vesturlönd hafa glatað möguleikum á að sveigja mál í umheiminum til samræmis við pólitíska hagsmuni Vesturlanda.

Foringjaval á Vesturlöndum hlýtur að vera orðið kolbrenglað, þegar sextán nafngreindir foringjar þeirra stuðla allir í kór að hnignun og hruni Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV