Sharon á leiðarenda

Greinar

Sharon á leiðarenda

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, er frægastur fyrir fjöldamorð í flóttamannabúðunum Sabra og Chatilla árið 1982, þegar hann smalaði fólki, þar á meðal börnum, inn í hús, sem hann lét síðan sprengja í loft upp. Þetta var hefnd að hætti þýzkra nazista, sem á sínum tíma drápu allt fólk í Lidice.

Sharon verður fáum harmdauði. Hann er hryðjuverkamaður og stríðsglæpamaður, heldur verri en Simon Peres, sem einnig stóð að fjöldamorðum á Palestínumönnum í Líbanon. Þeir illu félagar eru nýlega búnir að stofna stjórnmálaflokk, sem á að starfa á miðju stjórnmála Ísraels, hvað sem það þýðir.

Eini kosturinn við Sharon er, að enn verri menn taka við af honum. Ég átti þess kost fyrir mörgum árum að hlusta á Ehud Olmert í kvöldverðarboði í Jerúsalem, þáverandi borgarstjóra og núverandi forsætisráðherra. Það var froðufellandi geðsjúklingur, sem talaði, minnti mig á bíómyndir af Hitler.

Ég hlustaði við annað tækifæri á Benjamin Netanjahu, sem þá var formaður Likud-flokksins. Hann var ekki eins skelfilegur og Olmert, en eigi að síður fullur af mannhatri. Raunar var vist mín í Jersúsalem eins og vera kominn í tímavél aftur til Berlínar á valdaskeiði herraþjóðar nasizta Hitlers.

Að fara frá Ísrael var eins og að losna úr martröð. Þegar ég fór yfir Allenby-brúna yfir til Jórdaníu fannst mér ég vera kominn til Evrópu. Þar var fólk vingjarnlegt og kurteist, hataði ekki útlendinga. Þar var fólk, sem kunni mannasiði, eins og ég hafði vanizt á ferðum mínum víða um Evrópu.

Ísrael er vandræðaríki, ein af rótum spennunnar, sem ríkir milli íslams annars vegar og krossfara nútímans í stjórnum Bandaríkjanna og Bretlands. Það hefur náð sér í atómvopn og kúgar Palestínu á margvíslegan hátt, nú síðast með miklum múr, sem liggur kruss og þvers yfir akra Palestínumanna.

Vandræðin í alþjóðamálum nútímans stafa af, að Ísrael hefur náð tangarhaldi á Bandaríkjunum, sem fylgja Ísrael í einu og öllu. Persónugervingar þessa illa öxuls eru George W. Bush Bandaríkjaforseti og Ariel Sharon, en rætur öxulsins liggja í hægri sinnuðum, kristilegum ofsatrúarsöfnuðum vestanhafs.

Engin von er til betri tíma í Miðausturlöndum fyrr en Bandaríkin láta af eindregnum stuðningi við sögufræga bófa í stjórnmálum Ísraels, svo sem Ariel Sharon.

DV