Síbylja í sífurtóni

Greinar

Þegar við lærðum og náðum tökum á að beita frystingu til að verja fisk skemmdum og geyma hann í langan tíma, opnaðist Bandaríkjamarkaður og blómaskeið hófst í sjávarútvegi okkar. Við urðum svo ánægð með nýjungina, að við misskildum, hvað hún fól í sér.

Almennt er talið, að svokölluð fullvinnsla felist í að fara með fisk í gegnum frystihús með ærnum tilkostnaði, í stað þess að selja hann beint til útlanda eins og hann kemur upp úr sjónum. Það síðara er kallað að selja útlendingum hráefni í stað fullunninnar vöru.

Ekkert þýðir að benda á, að hærra verð fæst fyrir svokallað hráefni en svokallaða fullunna vöru. Enda sjá ráðamenn og talsmenn fiskvinnslunnar, einkum samtaka frystihúsa, sér hag í að viðhalda misskilningi sundurgreiningar milli hráefnis og fullvinnslu.

Umræður um stöðu fiskvinnslu eru að verða eins vonlausar og umræður um hinn hefðbundna landbúnað. Talsmenn fiskvinnslunnar endurtaka bara í síbylju gömlu slagorðin um hráefni og fullvinnslu, þegar þeir berjast gegn frjálsu fiskverði, fiskmarkaði og gámafiski.

Þetta kom greinilega fram í síðustu viku í ræðum stjórnarformanns og nýlegs forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á aðalfundi fyrirtækisins. Svipuð síbylja kom skömmu áður fram í viðtali nýlegs forstjóra Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda við DV.

Sífrað er um, að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé í voða, ef útgerðarmenn og sjómenn græða stórfé á að selja verðmætan ísfisk til landa Evrópubandalagsins, í stað þess að selja hann á lágu verði til fiskvinnslu, svo að þar megi varðveita vítahring lága kaupsins.

Þetta sífur er athyglisvert í þjóðfélagi fullrar atvinnu, þar sem barizt er um vinnuaflið. Í stað þess að ýta fólki út í arðsamari atvinnugreinar, sem gefa meiri laun, er verið að reyna að byggja upp landbúnaðarlegt verndarkerfi utan um lágu launin í fiskvinnslunni.

Síbylja forvígismanna fiskvinnslunnar stríðir gegn grundvallarlögmáli, sem segir, að hagkvæmast sé að ná sem mestum árangri með sem minnstri fyrirhöfn. Þetta grundvallarlögmál vinnsluvirðis og markaðar er meginþáttur allrar skynsamlegrar hagfræði.

Frá Japan eru okkur sagðar þær fréttir, að markaðsverð sé mun hærra og jafnvel margfalt hærra á ferskum fiski en á frystum. Þetta stafar af, að Japanir hafa mun meira vit á fiskgæðum en Vesturlandabúar. Japönskum sjónarmiðum mun vaxa fiskur um hrygg hér vestra.

Ferskur fiskur er enn innan við 20% af sölu íslenzkra þorskfiskafurða. Eðlilegt er, að hlutdeildin fari vaxandi með auknu áliti erlendra neytenda á ferskum fiski og tilsvarandi hækkun á verði hans. Ekki er fráleitt að stefna að um það bil helmingi útflutningsins.

Frystur fiskur mun áfram verða mikilvægur í útflutningi. Nóg er til í útlöndum af skólum, sjúkrahúsum og fangelsum, sem vilja kaupa slíka vöru. Og einnig er þar nóg til af sjónvarpssjúklingum, sem vilja kaupa þrautunninn ruslmat, sem er tilbúinn í örbylgjuofninn.

Mestu máli skiptir, að við vörum okkur á tilraunum forustumanna fiskvinnslunnar til að bregða fæti fyrir útflutning á ferskum fiski, alveg eins og við vörum okkur á tilraunum þeirra til að koma í veg fyrir aðra markaðshyggju, svo sem frjálst fiskverð og fiskmarkaði.

Þegar talsmenn fiskvinnslunnar eru komnir með síbylju í sífurtóni, sem við þekkjum úr landbúnaðinum, megum við vita, hver á að borga brúsann, ­ þjóðin.

Jónas Kristjánsson

DV