Siðareglur á hliðarspori

Greinar

Af fréttum síðustu vikna er ljóst, að fjölmiðlun á við margs konar vanda að stríða. Landsfaðirinn kveður vígvöllinn með þeim ummælum, að hálf blaðamannastéttin sé í vikastörfum hjá auðhringi. Árið 2005 er fjölmiðlun á Íslandi umræðuefni í veigamiklum átökum í heimi stjórnmála og stórviðskipta.

Þannig var það einnig fyrir fjörutíu árum, er blaðamenn settu sér siðareglur. Fyrir blaðamann á Tímanum hét pólitíski vandinn Framsókn og auðhringavandinn hét Samband. Þá ráku fjölmiðlarnir eins konar hóruhús fyrir auglýsendur í sérblöðum og sumir fjölmiðlar reka slík hús enn í dag.

Fyrir fjörutíu árum settu blaðamenn sér ekki siðareglur um form á samskiptum við stjórnmál, auðhringa og auglýsendur, þótt það væru brýnustu verkefnin á þeirra borði. Þeir settu sér hins vegar siðareglur um, að oft megi satt kyrrt liggja, ef einhver teldi að sér vegið, til dæmis með sönnum fréttum.

Þessi siðaregluplága hefur vaxið á fjörutíu árum. Daglega berast mér tölvubréf frá lögfræðingum, sem tjá mér, að viðskiptavinir þeirra séu djúpt særðir af fréttum um, að þeir hafi verið handteknir eða ákærðir, einkum vegna birtingar nafns og myndar og vegna uppsetningar frétta.

DV hefur sett sér ágætar siðareglur, sem fjalla rækilega um allt verklag á ritstjórn, þar á meðal um vandvirkni við gerð frétta. Þessar siðareglur fara stundum að mati siðanefndar blaðamannafélagsins ekki saman við siðareglur blaðamanna og því er DV þar fordæmt fyrir fréttir, sem eru 100% réttar.

Tími er kominn til, að blaðamannafélagið endurskoði reglur sínar og taki tillit til gamalla og nýrra sjónarmiða um ágenga blaðamennsku. Á málþingi félagsins um helgina kom fram, að allir pallborðsmenn töldu tíma vera kominn á slíka endurskoðun, sem gæti sameinað blaðamenn að nýju.

Lykill að slíkri endurskoðun er viðurkenning á, að ekki gildi nein regla um, að ritstjórar meti, hvort hluti upplýsinga eigi erindi til fólks. Allar upplýsingar eiga erindi til fólks, sem síðan getur sjálft metið málið. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að ákveða að þegja fréttir.

Ennfremur þurfa fjölmiðlar stuðning af sameiginlegum verklagsreglum um, hvernig haga skuli samskiptum við hugsanlega erfiða pólitíkusa, eigendur og auglýsendur.

DV