Síðari skákin

Greinar

Skurðgröftur borgarveitustofnana hefur tíðum þótt vera augljóst dæmi um tvær veikar hliðar á borgarrekstrinum. Annars vegar hefur þessi gröftur þótt bera vitni um lélegt samstarf milli smákónga. Og hins vegar hefur hann komið léttúðugu óorði á svonefnda bæjarvinnu.

Ekkert sérstakt bendir til, að rekstur Reykjavíkurborgar sé að þessu leyti lakari en annarra sveitarfélaga eða rekstur á vegum ríkisins. Opinber rekstur er í eðli sínu ekki eins hagkvæmur og einkarekstur, meðal annars vegna skorts á aðhaldi af frjálsri samkeppni.

Enn síður bendir nokkuð til, að embættismenn Reykjavíkur séu að einhverju leyti hæfari í rekstri en aðrir opinberir embættismenn. Hæfni þeirra er áreiðanlega upp og ofan eins og annarra embættismanna, að mestu háð tilviljunum við upphaflega ráðningu þeirra.

Smákóngar Reykjavíkurborgar hafa margir hverjir setið lengi við að safna völdum og vernda þau. Friðsælt samkomulag hefur verið milli pólitíska meirihlutans og embættismannakerfisins um, að hið síðarnefnda fái að mestu að ráða framkvæmdum og fyrirkomulagi.

Þegar vinstri stjórn var við völd í Reykjavík á einu kjörtímabili fyrir hálfum öðrum áratug, virtist hún ekki geta hreyft sig mikið fyrir apparatinu. Það hélt áfram að stjórna eins og það hafði alltaf gert. Hlutar þess grófu raunar undan hinum óvænta og óvelkomna meirihluta.

Hinn nýi vinstri meirihluti í Reykjavík hefur fordæmi þessarar gömlu vinstri borgarstjórnar sér til viðvörunar. Hann hefur fetað fyrstu skrefin rétt, með sameiginlegum lista og sterkum, pólitískum borgarstjóra, í stað sundraðra lista og veiks, tæknilegs borgarstjóra.

Samkvæmt kosningaloforðum er verk að vinna. Þau fela í sér aukið eftirlit með rekstri borgarinnar, sem undanfarin ár hefur of mikið einkennzt af montframkvæmdum. Og þau fela í sér áherzlubreytingar, sem nýi minnihlutinn lofaði raunar líka í sinni baráttu.

Mjög víða er brotalöm í smákóngakerfi borgarinnar. Sumir þættir þess hafa orðið endurtekið fjölmiðlaefni, svo sem byggingaeftirlitið og Kjarvalsstaðir. Aðrir þættir hafa vakið minni athygli, en eru þó skoðunar virði, svo sem rekstur íþróttamannvirkja í skólum borgarinnar.

Fyrirhuguð fjárhagsúttekt á rekstri borgarinnar er góðra gjalda verð, því að hún mun vafalaust sýna, að monthús undanfarinna ára séu þungur baggi á borginni og borgarbúum. En slík úttekt takmarkast vafalaust við yfirborðið eins og slíkar úttektir gera jafnan.

Úttektir eru dæmigerð viðbrögð stjórnmálamanna við kröfum um, að eitthvað sé gert í málum. Þær eru lesnar, en fjara síðan út, því að þær gegna fyrst og fremst hlutverki pólitísks verkjalyfs. Aðhald með rekstri þarf að vera sífellt, en ekki bara vera átaksverkefni.

Embættismenn eru sveigjanlegir, en vilja ekki láta ónáða sig með úttektum. “Já, borgarstjóri”, segja þeir. Ótal dæmi víða um heim sýna, að þeir hafa gott lag á að hefja aðgerðir í kjölfar úttekta og láta þær síðan fjara út, þegar fer að draga úr upphafsáhuga pólitíkusa.

Kosningasigur er aldrei nema hálfur sigur. Hann gefur lítið annað en aðgang að annarri baráttu, slagnum við kerfi smákónga og annarra embættismanna. Reynslan sýnir, að margir og líklega flestir þeir, sem vinna fyrra stríðið, ná litlum sem engum árangri í hinu síðara.

Enn einu sinni mun koma í ljós, að skákin við pólitíska andstæðinga er barnaleikur í samanburði við skákina við rótgróna og heimaríka borgarembættismenn.

Jónas Kristjánsson

DV