Siðaskrá DV er komin

Punktar

Siðaskrá hefur verið samin fyrir DV og verður birt í heild í blaðinu á morgun og í Fréttablaðinu um helgina. Þar geta allir séð, hvaða siðir ráða ríkjum á ritstjórn DV og hvernig eru verklagsreglur hér, hvort og hvenær og í hve miklum mæli er vikið út frá skránni og hvort ástæða sé til andmæla.

Gegnsæi er grundvöllur siðareglna af þessu tagi. Ritstjórnin leggur spilin á borðið, svo að allir geti betur áttað sig á forsendum þess, sem þeir sjá, heyra og lesa. Um leið veita siðareglur vörn gegn illa grundaðri gagnrýni, svo að betri tími vinnst til að taka á vandamálum, sem eru raunveruleg.

Siðaskrár auðvelda blaðamönnum starfið, því að þær segja þeim, hvernig megi starfa og hvernig ekki. Þær auðvelda ritstjórn fjölmiðla, því að þær eru óbein kennslubók í blaðamennsku fyrir nýliða í starfi. Þær auðvelda notkun fjölmiðla, því að fróðari lesendur veita betra aðhald.

Siðaskrár hafa rutt sér til rúms á góðum fjölmiðlum síðustu árin. Þekktust er siðaskrá brezka blaðsins Guardian, sem var fyrst fyrirmynd að siðaskrá Fréttablaðsins fyrir þremur árum og síðan að siðaskrá DV, sem nú tekur gildi. Í flestu falla þessar siðaskrár saman, en hver fjölmiðill hefur sinn stíl.

Siðaskrá DV er í nokkrum atriðum sérstök hér á landi, þótt hún eigi sér hliðstæður í verklagi erlendis. Forsenda siðaskrárinnar er sú staðreynd, að blaðið er ágengur fjölmiðill, sem leitar svara við því, hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað muni svo gerast.

Birting nafna og mynda eru afleiðing þessarar forsendu. DV birtir nöfn og myndir af fólki í fréttum. Undantekningar byggjast á hagsmunum brotaþola, einkum í kynferðismálum. Þetta er venjan, sem almennt gildir í vestrænum blöðum, en önnur íslenzk blöð hafa farið þrengra í slíkar birtingar.

Í siðaskránni eru einkamál skilgreind sem mál inni á heimilum fólks, er njóta verndar fyrir fjölmiðlinum, nema heimilið lendi í útistöðum við umhverfi sitt eða fólk vilji sjálft tala. Mál, sem gerast utan heimilis, eru talin opinber, þar á meðal eru fjármál og fyrirtæki opinber.

Í siðareglunum eru ótal önnur forvitnileg atriði, sem samanlagt setja miklar skorður við verklagi á ritstjórn. Við hvetjum lesendur til að lesa þær í blaðinu á morgun.

DV