Síðasta atlaga frægðarfólks

Greinar

Fyrstu fréttamenn og þulir sjónvarps flugu inn í pólitík, enda höfðu þeir lært framkomu og framsögn og voru inni á gafli hjá almenningi, meðan hefðbundnir stjórnmálamenn voru minna þekktir, kunnu illa að koma fram og svitnuðu í framan. Hin pólitíska framtíð virtist vera hjá sjónvarpspersónum.

En sjónvarpsfólkið varð skammlíft í pólitík. Eiður Guðnason var spilaður út sem sendiherra, Árni Gunnarsson í heilsunni og Markús Örn Antonsson var gerður að útvarpsstjóra, þegar ekki gekk að nota hann sem borgarstjóra. Stjórnmálamenn nútímans hafa átt sér aðra viðkomustaði en sjónvarpið.

Af leiðtogum í nútímanum komu aðeins vinstri grænir við sem sjónvarpsmenn eða leikkonur. Aðrir flokkar hafa nánast kerfisbundið hafnað slíku fólki, til dæmis Samfylkingin, þegar þar reyndi að brjótast fram Jakob Frímann Magnússon, sem þekktur var af tónlist og ýmsu framtaki á því sviði.

Öðru frægðarfólki hefur ekki vegnað betur. Baltasar Kormákur hafði ekki frama í stjórnmálum, ekki heldur Eyþór Arnalds og Ólína Þorvarðardóttir eða Ágústa Johnson. Dæmin sanna, að ekki er neinn einfaldur stökkpallur úr frægð á skjá eða sviði upp í þingmennsku eða vegsemdir á sviði þjóðmálanna.

Nú ætlar Gísli Marteinn Baldursson að rjúfa hefðina og verða borgarstjóri í næstu byggðakosningum. Spennandi er að vita, hvort honum nýtist frægð, sem ekki nýttist öðrum slíkum. Ef honum gengur þetta ekki, geta aðrir, sem frægir er af skjá eða sviði, hætt að láta sig dreyma um pólitískan frama.

Aðstæður eru nokkuð góðar. Reykjavíkurlistinn hefur staðið sig hörmulega á ýmsum sviðum, til dæmis í skipulagsmálum, sem hafa verið samfelld orrahríð á síðustu misserum. Hann þykist hafa samráð út og suður með borgarafundum, en hefur aldrei tekið neitt mark á gagnrýni á fundum eða í greinum.

Reykjavíkurlistinn er nákvæmlega jafnþreyttur í borginni og ríkisstjórnin er á landsvísu. Hrokinn er orðinn inngróinn í helztu leiðtoga listans og hindrar þá í að sjá, hversu hratt straumurinn ber þá að feigðarósi. Það kann ekki góðri lukku að stríða að æsa fjölmenna hópa borgara upp á móti sér.

Gísli Marteinn er eflaust betri kostur en Stefán Jóhann og Dagur. En spurning er, hvort hann ræður við Steinunni Valdísi, sem talar við grasrótina á vínbörum borgarinnar.

DV