Síðasta klukkustundin

Greinar

Helmings líkur eru sagðar á, að börn, sem fæðast á næstu árum, verði vitni að endalokum mannkyns eins og við þekkjum það. Þekktasti stjörnufræðingur Bretlands, sir Martin Rees við Cambridge-háskóla, telur, að þessar séu horfurnar á tilvist nútíma siðmenningar um næstu aldamót, eftir 95 ár.

Í bókinni Our Final Hour er Rees hvorki að tala um hættu á kjarnorkustríði né hættu á árekstri loftsteins við jörðina. Hann er bara að tala um vísindi og vísindamenn, hættuna á að fikt við erfðaefni muni leiða af sér breytingar, sem menn missi tökin á, leiði til dæmis til ógnvekjandi farsótta.

Sitt sýnist hverjum um skoðanir Rees, en enginn efast um, að hann er einn þekktasti fræðimaður heims á sviði svarthola í geimnum. Hann segir, að tímabært sé að fara að gera sér ekki bara grein fyrir möguleikum á sviði yztu vísinda, heldur einnig hættum, sem fylgja því að leika guð yfir jörðinni.

Rees varð allt í einu þungamiðja í deilum fræðimanna um stöðu þeirra í tilverunni. Annars vegar eru hinir bjartsýnu arftakar upplýsingaaldar, sem segja: Því meiri þekking, þeim mun betra. Hins vegar eru hinir svartsýnu, sem segja, að kominn sé tími til að meta áhættuna og setja hömlur á fót.

Þetta varðar ýmsa hluti, sem verið er að gera um þessar mundir. Erfðabreytt matvæli eru komin til sögunnar við mikla hrifningu fólks í Bandaríkjunum og miklar efasemdir fólks í Vestur-Evrópu. Það er orðið að heimspólitísku deilumáli, hvernig selja megi erfðabreytt matvæli í Evrópusambandinu.

Bandaríkjamenn telja, að Evrópusambandið sé að reyna að verja landbúnaðinn heima fyrir með því að setja hömlur á innflutning á afurðum bandarísks landbúnaðar. Hið sanna er, að Evrópumenn eru svartsýnni en Bandaríkjamenn og miklu líklegri til að setja upp varnagla gegn róttækum nýjungum.

Þegar kúariðan hafði hrist upp í Bretum fyrir nokkrum árum, ætlaði landbúnaðarráðherrann að lægja öldurnar með því að gefa dóttur sinni erfðabreyttan hamborgara í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þetta fór á öfugan veg, æsingurinn varð svo mikill, að ráðherrann varð að segja af sér.

Tveir þriðju hlutar Evrópubúa eru andvígir erfðabreyttum matvælum og neita algerlega að kaupa þau. Aðeins hér á Íslandi leika þau lausum hala. Aðeins hér á Íslandi eru stundaðar erfðabreytingar á korni. Við erum greinilega bandaríkjamegin í afstöðu til kosta og galla yztu vísinda.

Í Evrópu telja menn alls ekki gefið, að meiri og meiri vísindi feli endalaust í sér framþróun. Þar telja margir, að einhvern tíma fari mannkynið sér að voða við að leika guð.

Jónas Kristjánsson