Þegar forfeður okkar, sem kenndir eru við Cro Magnon, voru næstum búnir að útrýma Neanderdalsmönnum í Evrópu, höfðust síðustu leifar forveranna við í Gíbraltarkletti. Þar hafa fundizt 24.000 ára gömul bein Neanderdalsmanna, en áður voru yngstu beinin 36.000 ára. Þeir voru í flestu eins og menn, en höfðu lítið enni og enga höku, voru lágvaxnir og fjarska nefstórir. Heilinn var jafnstór og í nútímamanni, en sjónstöðvarnar stærri og skipulagsstöðvar minni. Enn búa eins konar Neanderdalsmenn á Gíbraltarkletti. Þar búa síðustu leifar brezka heimsveldisins, sem mönnum er að öðru leyti löngu gleymt.