Síðasti einræðisherrann

Greinar

Halldór Ásgrímsson hefur árangursleyst reynt að stjórna umhverfi sínu með því að garga í símann. Menn skulfu, þegar Davíð hringdi, en þeir yppta bara öxlum, þegar Halldór hringir. Davíð var síðasti einræðisherrann á Íslandi, en Halldór er ekki og verður aldrei neinn einræðisherra.

Geir Haarde er ekki heldur einræðisherra og verður það ekki, þótt hann verði formaður í haust og þótt hann kunni síðar að verða forsætisráðherra. Hann getur reynt að neita að tala við fjölmiðla, en menn munu bara yppta öxlum. Eins og Halldór verður Geir bara venjulegur forsætisráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntaráðherra verður ekki heldur einræðisherra, þótt hún verði varaformaður og geti síðar skákað Geir til hliðar sem formanni. Hún hræðir ekki einu sinni miðaldra karlmenn, svo að notað sé hennar eigið flokkunarkerfi. Tími einræðisherra er einfaldlega liðinn.

Um langan aldur hefur Davíð Oddsson varpað skugga sínum um allt þjóðfélagið. Hann hefur skipt sér af stóru og smáu, utan ríkisgeirans sem innan hans. Margir valdamenn hafa ekki þorað að taka ákvarðanir um mannaráðningar án þess að hafa talað fyrst við Davíð. Svo langur hefur skuggi hans verið.

Bjarni Benediktsson var einræðisherra á sínum tíma, kannski ekki eins mikill og Davíð Oddsson. Hugsanlega reynir nýr Bjarni Benediktsson að verða einræðisherra, þegar hans tími kemur. En það verður að teljast ósennilegt, jafnvel þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi hertogann einan að markmiði sínu.

Við búum við þær sérstæðu aðstæður, að stærsti flokkurinn er að nafninu til hægri flokkur, en rekur í raun stefnu eðalkrata að hætti Svía. Þannig var Ólafur Thors, þannig var Bjarni og þannig var Davíð. Þannig verður líka Geir, þannig verður Þorgerður Katrín og þannig verður nýr Bjarni.

Þetta stafar af, að Sjálfstæðisflokkurinn vill frekar hafa völd en knýja hægri stefnu til sigurs. Flokkurinn hefur alltaf þurft hertoga, sinn Mussolini. Hlutverk formannsins hefur verið að segja flokknum, hvað hann eigi að gera og hvert skuli stefna. Formanninum ber að vera einræðisherra.

Þegar formenn hætta að reyna að vera einræðisherrar, hefst nýtt tímabil í sögu flokks, sem ekki er vanur að hugsa fyrir formann hvers tíma. Þá verður úrslitastund í flokkssögunni.

DV