Síðasti Móhíkaninn

Greinar

Erfiðlega gengur að selja saltsíld til Sovétríkjanna, af því að viðhorfin hafa breytzt þar eystra. Ímyndaðir stjórnmálahagsmunir verða í vaxandi mæli að víkja fyrir hreinum viðskiptahagsmunum. Rammasamningar verða að víkja fyrir vestrænum markaðslögmálum.

Ekki er lengur nóg að fá undirskriftir embættismanna af gamla skólanum í Sovétríkjunum. Þessir embættismenn og aðrir slíkir eru taldir standa í vegi fyrir umbótum Gorbatsjovs og verða sennilega reknir fyrr eða síðar. Þannig síast breytingin um þjóðfélagið.

Nú eru ráðamenn utanríkisviðskipta í Sovétríkjunum farnir að spyrja, hvort raunverulega þurfi íslenzka síld, hvort hún sé ekki allt of dýr í samanburði við aðra síld á markaðnum og hvort Sovétríkin eigi yfirleitt gjaldeyri til að kaupa slíka lúxusvöru. Öll svörin eru neikvæð.

Áður fyrr sendu Sovétríkin listamenn um allan heim til að auka hróður Sovétríkjanna. Nú er heimtuð borgun í klingjandi, vestrænum gjaldeyri. Markaðslögmálin láta ekki að sér hæða, þegar þau fara að leika lausum hala, hvort sem er í óperusöng eða síldarkaupum.

Við megum búast við að geta ekki selt síld til Sovétríkjanna á næstu árum. Við munum tæplega heldur geta selt þangað peysur og trefla og annað dót. Og ekki þýðir að gera fleiri rammasamninga milli stjórnmálamanna um kaup og sölu á torseljanlegum varningi.

Viðskipti við Austur-Evrópu munu senn lúta sömu markaðslögmálum og viðskipti okkar við Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Erlendir kaupmenn munu kaupa af okkur vöru, sem þeir telja samkeppnishæfa og á verði, sem þeir telja samkeppnishæft.

Næstu daga og vikur verða íslenzkir ráðherrar önnum kafnir við að láta eins og allt sé eins og áður var í austri. Þeir hafa verið að hringja í sovézka starfsbræður og munu halda áfram að gera það. Þeir munu láta eins og Sovétríkin séu eins miðstýrð og Ísland er.

Þetta minnir á kvein íslenzkra ráðherra við þýzka ráðherra út af samdrætti í kaupum vesturþýzkra fyrirtækja á sjávarfangi í dósum frá Íslandi. Auðvitað gátu þýzku ráðherrarnir ekki stjórnað gerðum þýzkra kaupmanna, en þetta skilja íslenzkir ráðherrar ekki.

Ef til vill mistekst að opna efnahagslíf Sovétríkjanna og fleiri ríkja í Austur-Evrópu. Forréttindastéttirnar óttast um sinn hag og munu bindast samtökum við þá, sem fara halloka á markaði. Ef afturhvarf verður til miðstýringar, má aftur reyna að selja síld og trefla.

En afturhvarfið er ekki í augsýn. Enn um sinn verður Ísland eitt af fáum ríkjum Evrópu, sem ekki er annaðhvort með markaðsbúskap eða á fullri ferð til markaðsbúskapar. Við erum að verða síðasti Móhíkaninn, síðasta vígi trúarinnar á miðstýringu af hálfu ráðherra.

Við sitjum uppi með rammasamninga, búmark og fullvinnslurétt, kvóta og aflamark, hlutafjársjóð og atvinnutryggingarsjóð, Stefán Valgeirsson og alla sjóðina hans, refi og minka, kýr og kindur, svo og sjálfan Steingrím. Við erum að verða Albanían í Vestur-Evrópu.

Meðan svo að segja öll ríki Vestur-Evrópu efla auð sinn, höfum við komið okkur upp ríkisstjórn, sem er að smíða kreppu. Meðan flest ríki Austur-Evrópu eru að reyna að læra lexíuna frá Vestur-Evrópu, höfum við geirneglt miðstýringuna, sem leiðir til þjóðargjaldþrots.

Dæmigerðar eru örvæntingarfullar símhringingar íslenzkra ráðherra í sovézka ráðherra, sem hafa afsalað sér völdum eða eru að missa þau til markaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV