Síðbúin vísindaárátta

Greinar

Íslendingar ákváðu fyrir hálfu fjórða ári að hætta hvalveiðum. Margir voru að vísu óánægðir með þá niðurstöðu, en Alþingi hafði tekið af skarið. Ef sú niður staða hefði fengið að standa í friði, væru lífsbjargarmöguleikar Íslendinga mun traustari en þeir eru nú.

Slysið, sem síðan gerðist, var, að sjávarútvegsráðherra fann upp vísindahugsjón, setti undir sig haus og vann henni almennt fylgi hér á landi og meirihlutafylgi í fjölþjóðaklúbbi, sem kallast Alþjóða hvalveiðiráðið. Það er súpan, sem við sitjum í og sem á eftir að hitna.

Nefna má nýja ályktun Landssambands smábátaeigenda um hvalveiði sem dæmi um, hvernig vísindaáráttan hefur seint og um síðir heltekið þjóðina. Þar er hvað eftir annað getið um vísindi, vísindaveiðar og vísindaiðkanir. Síðasta orðið, vísindaiðkanir, er fegurst.

Ekki er vitað, að Landssamband smábátaeiganda hafi nokkru sinni fyrr fjallað um vísindaiðkanir eða tjáð ást sína á þeim. Sambandinu hefur að því leyti svipað til þjóðarinnar í heild, sem lætur sig vísindi litlu skipta og ver þjóða minnstu fé til vísindaiðkana.

Meðan úr öllum hornum heyrast harmafregnir um sáran fjárskort til vísindaiðkana hefur Hafrannsóknastofnun fengið á fjárlögum þessa árs 15.576.000 krónur til hvalarannsókna. Nemur þetta þremur fjórðu af allri fjárveitingu til sérstakra verkefna stofnunarinnar.

Margir hefðu verið fegnir að sjá þótt ekki væri nema helminginn af þessari upphæð renna til tölvurannsókna fyrir sjávarútveginn og kannski hinn helminginn í tilraunir í lífefnaiðnaði, svo að nokkur brýn dæmi séu nefnd. En vísindaárátta hvalveiðanna hefur forgang.

Hinar rúmu fimmtán milljónir ríkisfjárlaga virðast þó ekki ætla að segja alla sorgarsögu ársins, því að sjávarútvegsráðherra hefur hótað þjóðinni, að hún verði sennilega að greiða niður stórtapið af útgerðinni. Verður vísindaárátta ráðherra og þjóðar þá orðin dýr.

Sorglegt er að sjá starfsmenn Hafrannsóknastofnunar koma fram og játa trú á vísindahugsjón sjávarútvegsráðherra. Með því hafa þeir stuðlað að þeirri sjálfsblekkingu Íslendinga, að hvalveiðar okkar séu ekki stundaðar í ábataskyni, heldur vísindaskyni.

Fyrir utan landsteinana hafa fáir trú á þessari hugsjón vísindaiðkana. Menn fást alls ekki til að samþykkja, að veiða þurfi 120 stórhveli til að útvega vísindamönnum eitthvað að gera. Næstum allir halda því fram, að vísindaveiðar okkar séu yfirvarp eitt.

Mál þetta versnaði, þegar sjávarútvegsráðherra tók upp á að halda fram, að innanlandsneyzla hvalkjöts væri hið sama og sala þess til Japans. Það var svo augljós orðhengilsháttur, að hann varpaði skugga á fyrri kenningu ráðherrans um vísindahugsjónir okkar.

Vafalaust hyggst ráðherrann halda með fylktu liði á næsta fund Alþjóða hvalveiðiráðsins, þegar fjallað verður um, hversu mikið hóf verði að hafa á vísindum af þessu tagi. Þar mun hann berjast eins og naut í flagi og valda þjóðinni fögnuði ­ og ómældum skaða um leið.

Ekki skiptir aðalmáli, hvort hinum óþreytandi ráðherra tekst eða tekst ekki að verja undanhaldið á næsta fundi ráðsins. Hitt er mikilvægara, að Íslendingar verða þá enn betur en nú stimplaðir sem hinir verstu menn, er ekki beri að kaupa af neinar sjávarafurðir.

Gott væri, að Landssamband smábátaeigenda og Íslendingar almennt láti æði vísindaáráttu renna af sér og fari að líta raunsæjum augum á þjóðarhagsmuni.

Jónas Kristjánsson

DV