Siðferðishrun

Greinar

Ísraelar og Króatar eru fyrstu þjóðirnar, sem hafa lært af miklum árangri Serba í þjóðahreinsun og eru að feta í fótspor þeirra. Fleiri munu fylgja á eftir, þar á meðal í Austur-Evrópu og í löndum Sovétríkjanna sálugu, þar sem tryllt þjóðernishyggja fer ört vaxandi.

Ísraelar eiga það sammerkt með Serbum og Króötum að telja sig af sagnfræðilegum ástæðum ekki þurfa að fara eftir vestrænum siðalögmálum í samskiptum þjóða. Allar þessar þjóðir telja hremmingar forfeðra sinna fyrir hálfri öld réttlæta siðlausa framgöngu sína í nútímanum.

Ísraelar eru byrjaðir á landhreinsun í suðurhluta Líbanons. Með loftárásum hrekja þeir tugi þúsunda óbreyttra og algerlega saklausra borgara frá heimkynnum sínum og beita að venju sinni svipuðum röksemdum og Hitler notaði, þegar hann réðst inn í Pólland.

Það eru einkar dapurleg örlög Ísraels að hafa orðið að svipuðu æxli í umheiminum og Hitlers-Þýzkaland var orðið á sínum tíma, þótt í smærri stíl sé, enda miklu fámennara ríki. Ár eftir ár hafa Ísraelar orðið krumpaðri og sérhæfðari ofbeldis- og hryðjuverkaþjóð.

Siðleysi Ísraels er ekki tengt ákveðnum stjórnmálaöflum. Það hefur sinn gang, þótt stjórnarskipti verði í landinu. Það er ekki stjórnkerfið eitt eða herinn einn, sem stendur að baki ofbeldinu, heldur er það samkvæmt skoðanakönnunum stutt af meirihluta þjóðarinnar.

Ofbeldi Ísraela hefur síðustu árin beinzt að barna- og unglingamorðum í Palestínu og að skipulegu niðurrifi efnahagsgerðar landsins. Þeir hafa í þessu skyni þverbrotið alþjóðasáttmála um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Þetta hafa þeir gert í bandarísku skjóli.

Ísraelar hefðu samt ekki þorað að leggja út í skipulega landhreinsun í suðurhluta Líbanons, ef þeir hefðu ekki haft tækifæri til að fylgjast með velgengni Serba í þjóðahreinsuninni í Bosníu. Enda kemur í ljós, að máttvana eru viðbrögð bandarískra stjórnvalda við ofbeldi Ísraela.

Króatar eru önnur þjóð, sem hefur krumpazt að fyrirmynd Serba. Á síðustu mánuðum hafa þeir tekið vaxandi þátt í þjóðarmorðinu í Bosníu og beita aðferðum, sem þeir hafa lært af Serbum. Þeir gera það í skjóli efnahagslegs stuðnings, sem Vestur-Evrópa hefur veitt þeim.

Vestur-Evrópa er einmitt þessa dagana að verðlauna Serba og Króata fyrir brjálæðislega framgöngu þeirra með því að koma í veg fyrir að Bosníumönnum berist varnarvopn og með því að reyna að kúga leiðtoga þeirra til að fallast á landvinninga Serba og Króata.

Í kjölfar vel heppnaðs þjóðarmorðs í Bosníu munu Vesturlönd sennilega gefa Serbum upp sakir, taka aftur upp stjórnmálasamband við þá, hefja samskipti í menningu og íþróttum, láta af efnahagslegum refsiaðgerðum og yfirleitt láta eins og ekkert hafi í skorizt.

Allt mun þetta hafa hinar verstu afleiðingar. Helztu brjálæðingar í valdastéttum um heim allan hafa fylgzt vel með máttvana viðbrögðum Vesturlanda við óvenjulega óhugnanlegu ofbeldi Serba í Bosníu. Þátttaka Króata í viðurstyggð Serba er bein afleiðing af þessu.

Í fjölmennustu og voldugustu ríkjum Vesturlanda eru helztu valdastöður skipaðar innantómum kjaftöskum, sem ekki hafa langtímasjónarmið í huga og hafa enga yfirsýn yfir afleiðingar af beinum og óbeinum stuðningi Vesturlanda við óvægna landvinningastefnu Serba.

Máttvana hugleysi og ræfildómur vestrænna leiðtoga á því miður eftir að verða mannkyninu þungur í skauti. Vestrænir kjósendur bera ábyrgð á siðferðishruninu.

Jónas Kristjánsson

DV