Siðlaus slagorðabæklingur.

Greinar

Svonefndur Upplýsingabæklingur ríkisstjórnarinnar, sem sendur var til allra heimila landsins, er ómerkilegur áróðursbæklingur af því tagi, er stjórnmálaflokkarnir senda kjósendum til að rugla þá fyrir kosningar.

Bæklingurinn er greinilega framleiddur á auglýsingastofu, þar sem umbúðir eru taldar brýnni en innihald. Enda hefur hún ekki séð ástæðu til að merkja sér bæklinginn, svo sem slíkar gera, þegar þær eru ánægðar með sig.

Bæklingurinn felst í skreytingum og slagorðum til varnar bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar og öðrum gerðum hennar í sumar. Hann gerir enga tilraun til að útskýra gerðirnar eða rökstyðja þær á annan hátt.

Ríkisstjórnir hér og erlendis hafa einstaka sinnum gefið út svonefndar Hvítar bækur til að skýra meiriháttar stefnubreytingar. Þar hefur verið beitt rökum og útreikningum til að koma umræðunni á málefnalegt stig.

Ekkert fordæmi er hins vegar fyrir hinum nýkomna auglýsingabæklingi ríkisstjórnarinnar. Í honum eru eingöngu tuggin upp gömul slagorð úr stjórnmálarimmum sumarsins. Hann er gersamlega laus við að vera málefnalegur.

Áróður þessi fyrir stjórnarstefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kostar skattgreiðendur í landinu 320 þúsund krónur. Stjórnarflokkarnir hyggjast nefnilega ekki borga sinn áróður sjálfir.

Steingrímur Hermannsson hefur hér í blaðinu reynt að verja þennan óverjandi slagorðabækling með því að verið sé “að reyna að upplýsa fólk sem mest um það, sem verið sé að gera”. Hvílíkt endemis rugl.

Hugsanlega hefði verið verjandi að gefa út Hvíta bók með ítarlegum upplýsingum um gerðir ríkisstjórnarinnar ásamt útskýringum á þeim og þá ekki síður athugasemdum og efasemdum, sem komið hafa úr ýmsum áttum.

Bæklingur með einhliða upphrópunum um ágæti stjórnarstefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og engu öðru innihaldi á hins vegar ekkert skylt við Hvítar bækur og á auðvitað að greiðast úr flokkssjóðunum.

Stjórnarandstaðan á alþingi þarf að fylgja þessu hneykslismáli vel eftir alla leið yfir í ríkisendurskoðun, – með kröfum um, að 320 þúsunda reikningurinn verði sendur þeim tveimur flokkum, sem peningunum stálu.

Hitt er svo athyglisvert, að ráðherrar tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna skuli vera á svo lágu siðferðisstigi, að þeir sjái ekki, hvað er athugavert við útgáfu pólitískra áróðursbæklinga á kostnað skattgreiðenda.

Þetta er alveg í stíl við þá yfirlýstu skoðun forsætisráðherra, að honum finnist óviðkunnanlegt og raunar ófært að fara á skíði í ríkisbíl. Þess vegna hefur ríkið þurft að gefa honum hálfan bíl og skatt af hlunnindunum.

Meðan íslenzk stjórnmál eru á þessu stigi sjálftektar á fjármunum almennings, er engin von til, að almenningur öðlist traust á stjórnmálamönnum og hætti að líta á þá sem lukkuriddara og hálfgildings sjóræningja.

320 þúsund króna slagorðabæklingur í umbúðum frá auglýsingastofu og alls engu efnislegu innihaldi er dapurlegur áróður fyrir ríkisstjórn, sem með þessu hefur einkum auglýst, að hún þurfi á siðvæðingu að halda.

Jónas Kristjánsson.

DV