Væri ég að byrja lífið núna, yrði ferillinn snubbóttur. Fengi tæpast vinnu á fjölmiðli vegna gruns um sjálfstæða hugsun. Hvað þá að ég yrði ritstjóri blaða. Fréttir og skoðanir eru núna ókeypis, greiddar af hagsmunum. Borgarbækur mínar tíu hefðu ekki komið út og enn síður fjórtán bækur mínar um hrossarækt. Hefði að minnsta kosti ekki getað selt vinnuna, því stolið efni næst frítt á netinu. Þjóðleiðabókin stóra gæti að vísu komið út núna, en eftir örfá ár verða stolin sérkort ókeypis á netinu. Höfundar eiga lítinn séns árið 2015, þótt mér hafi verið allir vegir færir 1962. Kannski er ég af úreltri kynslóð síðustu höfunda.