Þegar íslenzku fjallgöngugarparnir komu til landsins úr ferð sinni á tind Everest, virtist svo sem skipafélag í Reykjavík ímyndaði sér, að það hefði sjálft klifrað upp á tindinn. Það gekk berserksgang í að auglýsa sig og Everest, þótt það væri bara einn margra stuðningsaðila.
Stundum eru vegir ímyndarfræðanna svo barnalegir, að erfitt er að átta sig á, hver er að gabba hvern. Oft eru menn fremur að sefja sjálfan sig en aðra, svo sem þegar kratar hrósa sér af sigri brezka verkamannaflokksins og Alþýðubandalagsmenn af sigri franskra sósíalista.
Flestir átta sig á, að valdabreytingar í evrópskum stjórnmálum eru út og suður eftir staðbundnum aðstæðum. Þær segja ekkert um, hvort íslenzkum stjórnmálaflokkum muni ganga vel eða illa í næstu kosningum, því að það fer líka eftir stað- og tímabundnum aðstæðum.
Sjálfsblekkingar eru hluti daglega lífsins og eru oft ekki til vandræða. Sumar eru beinlínis skemmtilegar eins og þegar “við unnum” í einum handboltaleiknum í Japan, en “þeir gerðu jafntefli”, þegar íslenzka liðinu gekk ekki eins vel í öðrum leik í sömu keppni.
Oft er þó, að ímyndanir og blekkingar eru beinlínis framleiddar með árangri. Þetta hefur löngum verið algengt í stjórnmálum og er ekki verra hér á landi en annars staðar. Að minnsta kosti hafa asnaeyru bandarískra kjósenda reynzt vera heldur lengri en íslenzkra.
Alls konar gylliboð freista margra í viðskiptum. Fjöldi manna er farinn að nota fríkort, sem felur í sér hálft prósent afslátt af heimilisinnkaupum, ef menn halda tryggð við ákveðna verzlunarkeðju, sem hefur tíu prósent hærra vöruverð en önnur verzlunarkeðja.
Ekki er nóg með, að notendur kortsins fórni möguleikanum á 10% afslætti í stað 0,5% afsláttar, heldur verða þeir að bíða í langan tíma meðan þeir eru að safna punktum. Auglýsingaskrum tilboðsins sýnir, að ímyndarfræðingar þess telja almenning fremur illa gefinn.
Neyzlumynztur Íslendinga sýnir, að hingað til hefur tekizt með auglýsingum að venja fólk á ýmsa óhollustu, sem skaðar heilsuna og veldur þjóðfélaginu miklum kostnaði. Neyzla á gosi, sem er nærri eingöngu sykur að þurrefni, hefur þrefaldazt á mann á þremur áratugum.
Sælgæti, sem inniheldur 4050% sykur, er selt með árangri undir því yfirskini, að það sé morgunkorn. Mjólkurvörur eru blandaðar sykri, svo að hann fer upp í 1015% innihaldsins og eru þá kallaðar skólaskyr eða skólajógúrt til þess að gefa eitthvað hollustulegt í skyn.
Allar þessar sykruðu sælgætisvörur eru auglýstar af kappi undir því yfirskyni, að þær séu hollar. Margar auglýsinganna hafa beinlínis börn að skotmarki, einkum auglýsingar á svokölluðu morgunkorni. Svo virðist sem ungir og aldnir hafi gleypt við þessari blekkingu.
Þótt ímyndarfræðingum mistakist stundum, þegar trú þeirra á heimsku fólks fer út í öfgar, hafa þeir þó oftar rétt fyrir sér. Það er nefnilega eitt af mestu þjóðfélagsvandamálum nútímans, að þekking og tækni blekkjenda vex miklu hraðar en þekking og tækni hinna blekktu.
Neytendasamtök mega sín lítils í þessum ójafna leik, enda láta flestir sér í léttu rúmi liggja, þótt þeir séu sífellt blekktir. Í skólum mætti þó efla neytendafræðslu, svo að fólk sé betur í stakk búið, þegar það kemur út á viðskiptamarkaðinn með fullar hendur plastkorta.
Þeir, sem venjast við að láta gabbast í viðskiptum, munu líka láta gabbast í stjórnmálum. Þeir munu jafnvel ímynda sér, að skipafélag hafi siglt á Everest.
Jónas Kristjánsson
DV