Sigur gegn jarðsprengjum

Greinar

Mannkynið bar sigur af hólmi á fimmtudaginn í einum bardaganum við það illa í sjálfu sér. Þá samþykktu tæplega hundrað ríki á fundi í Ósló að banna notkun jarðsprengna, að eyða birgðum þeirra og að hreinsa núverandi jarðsprengjusvæði á næstu tíu árum.

Um 26.000 manns farast á hverju ári af völdum jarðsprengna og gífurlegur fjöldi ber varanleg örkuml af þeirra völdum. Mest eru þetta óbreyttir borgarar, sem yfirleitt eru marklaus peð að mati þeirra, sem nota jarðsprengjur sér til framdráttar í styrjöldum og átökum.

Munurinn á jarðsprengjum og kjarnorkusprengjum er fyrst og fremst sá, að þær fyrrnefndu eru notaðar, en hinar síðarnefndu ekki. Jarðsprengjur eru án efa skelfilegasta og tillitslausasta manndrápstæki nútímans, enda eru þær litlar og handhægar í meðförum.

Samkomulagið gerir ráð fyrir, að undirskriftaraðilar fái fjögur ár til að eyða birgðum sínum og tíu ár til að hreinsa jarðsprengjubelti. Framlenging á hreinsunar-tíma kemur til greina fyrir lönd á borð við Kambódsíu, þar sem nú eru um fimm milljón sprengjur í jörð.

Margt gott fólk hefur lagt mikið af mörkum til að ná ríkjum heims að samningaborði um baráttu gegn jarðsprengjum. Fyrirhöfnin hefur nú leitt til frækilegs áfangasigurs, er tæplega hundrað ríki hafa verið skuldbundin til þátttöku í banni við sprengjunum.

Mesti sigurinn fólst vafalaust í, að fulltrúar þessara ríkja létu sér ekki bregða, þótt stjórn Bandaríkjanna gengi berserksgang á síðustu stundu til að reyna að koma í veg fyrir samþykkt bannsins. Þeir fóru eigi að síður sínu fram og vatnsblönduðu ekki samkomulagið.

Clinton Bandaríkjaforseti lét sig hafa að liggja í símanum til að fá erlenda þjóðhöfðingja til að fallast á útvötnun samkomulagsins. Næstum hvarvetna fékk hann þær köldu kveðjur, sem hann átti skilið, enda er niðurlæging hans og Bandaríkjanna feiknarleg.

Bandaríkin eru þó ekki eina ríkið, sem hafnaði aðild að gerð og undirritun samkomulagsins. Rússland, Kína, Indland, Pakistan, Íran og Írak voru líka fjarverandi. Ennfremur er búist við, að bið verði á staðfestingu Ástralíu, Póllands, Japans, Spánar, Ekvadors og Kúvæts.

Munurinn á neikvæðri afstöðu Bandaríkjanna annars vegar og hins vegar ríkja á borð við Rússland og Kína er, að Bandaríkin lögðu sig fram um að spilla fyrir niðurstöðu Óslóarfundarins, en hin ríkin létu kyrrt liggja. Þannig hafa Bandaríkin stimplað sig sérstaklega.

Ástæðan fyrir sérstöðu Bandaríkjanna er jarðsprengjubelti þeirra á landamærum Suður- og Norður-Kóreu. Þau vildu fá undanþágu fyrir þetta belti og önnur slík landamærabelti. Raunar vildu þau líka fresta öllu málinu í níu ár og leyfa notkun á stríðstímum.

Auðvitað kemur jarðsprengjubann að takmörkuðu gagni, þegar mestu herveldi og vopnaframleiðsluríki heims taka ekki þátt í því. En afgangurinn af heiminum hefur tekið siðræna forustu, sem mun spara þúsundir mannslífa á hverju ári og vera öðrum ríkjum fordæmi.

Mikilvægt er, að Bandaríkjunum tókst ekki að valta yfir heiminn í þessu máli eins og þeim tókst fyrr á árinu, þegar þau veltu úr sessi Boutros Ghali, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þetta sýnir pólitísku yfirgangsríki, að takmörk eru fyrir valdi þess.

Samkomulagið um bann við framleiðslu, geymslu og notkun jarðsprengna verður staðfest í Ottawa í desember og kemur til framkvæmda strax um áramótin.

Jónas Kristjánsson

DV