Sigurhátíð

Greinar

Sigurhátíð var um helgina á Laugarvatni, þegar Stéttarsamband bænda minntist 40 ára afmælisins. Stjórnendur landbúnaðarins glöddust yfir atburðum ársins, sem treysta þá í sessi og tryggja, að straumar fjármagns um hendur þeirra verða heldur stríðari en áður var.

Alþingi setti um þetta lög í sumar. Þau lög túlkaði ráðherra síðan snarlega með reglugerðum og samningum við stjórnendur landbúnaðarins. Eftir þessa sumargleði opinberra ákvarðana er ástæða til að reikna með, að landbúnaðurinn verði ekki léttari byrði en áður.

Hingað til voru aðeins hefðbundnu búgreinarnar baggi á skattgreiðendum. Framleiðsluráð hefur fengið að ofskipuleggja offramboð á afurðum sauðfjár- og nautgripabúskapar. Nú fær það líka að leika sér að afurðum alifugla- og svínabúskapar, sennilega með sama árangri.

Kjarnfóðursjóður hefur verið festur í sessi. Með honum fá stjórnendur landbúnaðarins tækifæri til að taka fé hér og þar út úr landbúnaðinum og skammta því eða úthluta síðan á aðra staði. Það er einmitt þetta hlutverk skömmtunarstjóra, sem valdamenn sækjast oft eftir.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að skattgreiðendur eiga ekki að fá að njóta samdráttar í útflutningsbótum. Hægfara minnkun þeirra fylgir hliðstæð aukning á greiðslum skattgreiðenda í sjóð, sem aðallega kaupir af bændum svokallað búmark eða rétt þeirra til kinda og kúa.

Um þessa niðurstöðu er engin þjóðarsátt. Um hana er ekki einu sinni sátt í Framsóknarflokknum. Hún er ekki að vilja þeirra, sem vilja óbreyttar niðurgreiðslur, uppbætur og styrki, – sem telja skattgreiðendum skylt að halda uppi hefðbundnum búskap með óbreyttum hætti.

Hún er ekki heldur að vilja framsóknarmanna í þéttbýli og við sjávarsíðuna, sem vita, að flokkur þeirra stendur þar afar höllum fæti. Það mun áfram jafngilda sjálfspyndingarhvöt hjá skattgreiðendum á þeim slóðum að kasta atkvæðinu á svo eindreginn landbúnaðarflokk.

Hinn pólitíski armur stjórnenda landbúnaðarins með hinn öfluga Jón Helgason ráðherra í broddi fylkingar þarf hins vegar ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessu. Kjósendur við sjávarsíðuna og í þéttbýlinu hafa nefnilega ekki í svo mörg pólitísk skjól að venda.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur dyggilega stutt stefnu Jóns Helgasonar og stjórnendaliðs landbúnaðarins. Hann barðist meira að segja fyrir því á lokadögum Alþingis í sumar, að mál þetta yrði knúið í gegn með ótrúlegum hraða. Hann er nákvæmlega jafn ábyrgur.

Stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar, Alþýðubandalagið, er ekki líklegt til að vera andvígt afturhaldi af þessu tagi. Lög, reglugerðir og samningar sumarsins eru einmitt í anda ríkisrekstrar og Alþýðubandalagsins. Miklu líklegra væri, að það reyndi að yfirbjóða.

Þannig eru skattgreiðendur þéttbýlis og sjávarsíðu fangar stefnu stjórnenda landbúnaðarins og verða svo enn um sinn. Sú stefna, að ríkisvaldið eigi ekki að hafa meiri afskipti af landbúnaði en öðrum framleiðslugreinum, hefur að sinni litla möguleika á vettvangi stjórnmálanna.

Afnám útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, beinna styrkja og innflutningsbanns í landbúnaði er ekki í sjónmáli. Miðstýring stjórnenda landbúnaðarins er í sókn. Fjárhagsleg völd þeirra hafa verið aukin. Það var því full ástæða til sigurhátíðar að Laugarvatni um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV