Sigurinn er ósigur

Greinar

Liðskannanir í herbúðum samtaka launþega hafa leitt í ljós, að fólk er ekki eins baráttuglatt og látið hefur verið í veðri vaka. Í samræmi við það hafa seglin verið rifuð á stærstu skútunni. Forusta Alþýðusambandsins er í rauninni farin að falast eftir nýrri þjóðarsátt.

Að venju fer öllu meira fyrir bandalagi opinberra og mest fyrir kennurum. Sú baráttuharka er þó til einskis, því að viðsemjandinn er einmitt sá aðili, sem er harðari en nokkur annar vinnuveitandi í landinu. Það er ríkið sjálft, sem er að verja stefnu ríkisstjórnarinnar.

Að ýmsu leyti má líta á það sem töluverðan árangur hjá ríkisstjórninni að hafa komizt upp með að rífa fyrri þjóðarsátt í tætlur og fá svo fórnardýrin til að biðja um nýja þjóðarsátt á lægri nótum. En það getur líka verið hættulegt að valta yfir almenning hvað eftir annað.

Ríkisstjórnin getur sennilega látið kné fylgja kviði og náð nýrri þjóðarsátt án kauphækkana og með fremur litlum félagsmálapakka, að minnsta kosti mun minni pakka en forustumenn samtaka launafólks hafa verið að fjalla um sem þolanlega lendingu í erfiðri stöðu.

Ef þetta verður raunin, nær ríkisstjórnin að sigla út þetta ár, án þess að verðbólga fari af stað á nýjan leik. Það væri óneitanlega umtalsverður sigur stjórnarstefnunnar og um leið einkar jákvæð stærð í þjóðarbúskapnum. En á móti koma aðrar stærðir, sem eru neikvæðar.

Þótt þjóðin hafi gott af því að reyna að lifa ekki um efni fram, er ekki sama, hvernig farið er að. Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst ráðizt gegn velferðarkerfi almennings, lífskjörum, heilsugæzlu og menntun, en látið velferðarkerfi gæludýra atvinnulífsins í friði.

Haldið er fullum dampi á verðmætabrennslu í hefðbundnum landbúnaði. Ráðherrar halda fullum dampi á hefðbundnu kjördæmapoti. Undir yfirskini einkavæðingar er ríkiseinokun breytt í einkaeinokun og fram haldið hefðbundinni gæzlu sérhagsmuna gæludýranna.

Ríkisstjórnin lætur almenning um allar þjáningar af laxeringu þjóðarbúsins. Þótt margir hafi gott af því að læra að lifa ekki um efni fram, hefði þó verið enn gagnlegra, ef gæludýrin í velferðarkerfi atvinnulífsins og sérhagsmunanna væru látin lifa á eigin verðleikum.

Þótt margir hafi gott af því að læra að lifa ekki um efni fram, er þó ljóst, að sumt fólk hefur ekki þau efni, að því gagnist þessi lexía. Einna verst fara hinir atvinnulausu, sem smám saman missa getuna til að afla sér nýrrar vinnu og verða að lokum ófærir til vinnu.

Þegar upp úr þessari heimatilbúnu kreppu er staðið, mun koma í ljós, að atvinnuleysið hefur breytt svo persónuleika fólks, að það getur ekki hagnýtt sér vinnu, þótt hún bjóðist. Það er reynsla frá útlöndum, að mikla endurhæfingu þarf til að hasla sér völl að nýju.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að mála skrattann á vegginn, til dæmis með því að vísa til Færeyja og vara við færeysku ástandi, svo og að keyra lífskjör þjóðarinnar eins mikið niður og frekast er unnt. Þannig telur hún, að svokallað jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum.

Um leið magnar ríkisstjórnin hina heimatilbúnu kreppu. Hún hefur forustu um að draga kjark úr fólki og hefta það framtak, sem eitt getur lyft þjóðinni upp úr vonleysi og svartsýni. Þessi skuggahlið er þyngri á vogarskálunum er hin bjarta hlið stöðugs verðlags.

Svo langt getur sigurvegari gengið fram í að kúga og kvelja hinn sigraða, að hinn sigraði missi mátt til að standa undir þungri yfirbyggingu sigurvegarans.

Jónas Kristjánsson

DV