Síkosnir einræðisherrar.

Greinar

Eitt dæmi nægir til að útskýra, hvernig stendur á feiknarlegum vinsældum Davíðs Oddssonar borgarstjóra í skoðanakönnunum og hve illa stjórnarandstöðuflokkunum í borgarstjórn gengur að fá kjósendur til að taka trú á getu þeirra til að mynda starfhæfan meirihluta.

Þetta dæmi er Ölfusvatnsmálið. Þar hefur meirihluti Davíðs ákveðið að kaupa jarðhitaland í nágrenni Nesjavalla á 60 milljónir króna. Stjórnarandstaðan hefur rekið upp ramakvein og sakað meirihlutann um að hafa gefið ríkum landerfingjum milljónir á silfurdiski.

Þessi sami minnihluti, einkum Alþýðubandalagsdeildin, hefur í vetur kvartað yfir borunum Hitaveitu Reykjavíkur í landi Nesjavalla. Þjóðviljinn hneykslaðist á því í fimm dálka frétt á forsíðu, að “orkuævintýri” þetta verði glapræði upp á fjóra milljarða króna.

Þannig sér almenningur minnihlutann sem úrtölulið, er ekkert áræði hefur. Margir muna enn eftir því, að borgin keypti hitaveituréttindi að Suður-Reykjum í Mosfellssveit á 150 þúsund krónur. Það þótti morð fjár í þá daga, en hefur síðan reynzt skítur á priki.

Hin sama mun verða niðurstaða Ölfusvatnskaupanna. Eftir tíu eða fimmtán ár munu menn gleðjast yfir framsýni þeirra, sem þorðu að kaupa landið á 60 milljónir króna. Þá munu menn enn minnast þess, að það er íhaldið í Reykjavík, sem jafnan hefur keypt land á land ofan.

Öfund og hneykslun er ekki vænlegt vegarnesti í stjórnmálum. Tilgangslaust er að mikla fyrir sér, að einhverjir verði ríkir af því að selja borginni land á margfalt hærra verði en þeir eða arfleiðendur þeirra keyptu það á, miðað við verðlag á hverjum tíma.

Ennfremur er tilgangslaust að mikla fyrir sér, að einhverjir öfundsverðir náungar hafi fengið gefna tvo togara Bæjarútgerðarinnar, því að söluverðið hafi verið of lágt að mati hinnar öfundsjúku og hneyksluðu stjórnarandstöðu. Kannski mátti borgin til með að losna við skipin.

Af sama toga spunnin er andstaðan gegn þátttöku Reykjavíkurborgar í fjölmiðlunarfyrirtækinu Ísfilm. Einnig gegn viðræðum borgarinnar um sameiningu Bæjarútgerðarinnar og Ísbjarnarins á Grandagarði. Minnihlutanum gagnar ekki að segja þetta vera dæmi um einræðishneigð borgarstjórans.

Skörulegir og einráðir borgarstjórar geta gert mistök. Þau eru þá væntanlega sum stærri í sniðum en þau mistök, sem langorð nefndastjórn samsteypustjórnar öfundsjúkra mundi gera. En Reykvíkingar vilja skörulega og einráða borgarstjóra, sem standa og falla með gerðum sínum.

Reykvíkingar sjá minnihlutann fyrir sér sem ósamstæðan hóp fólks, er situr á löngum nefndafundum til að sætta margvíslega sérvizku einstakra aðila samsteypunnar. Þeir sjá hann fyrir sér sem minniháttar lið, er aldrei mundi þora að kasta 60 milljónum í Ölfusvatnsland.

Þannig var Bjarni Benediktsson endurkosinn einræðisherra í kosningum eftir kosningar. Þannig var Gunnar Thoroddsen endurkosinn einræðisherra í kosningum eftir kosningar. Þannig verður Davíð Oddsson endurkosinn einræðisherra í kosningum eftir kosningar.

Vinstri stjórnin í Reykjavíkurborg 1978-1982 hafði allt annan stíl en venjulega hefur ríkt hjá skörulegum borgarstjórum íhaldsins. Þetta ættu vinstri menn að taka til greina í naflaskoðuninni, sem nú fylgir í kjölfar niðurstaðna skoðanakannana í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson.

DV