Síldarmannagötur

Frá botni Hvalfjarðar að Sjónarhóli eða áfram að Vatnshorni í Skorradal.

Leiðin er öll vörðuð og stikuð. Áður fyrr var síld veidd í Hvalfirði. Þegar í fornöld hétu göturnar þessu nafni. Hólmverjar fóru Síldarmannagötur að Hvammi í Skorradal og stálu þar yxn Þorgrímu smiðkonu og ráku suður á hálsinn. Uxarnir snéru hins vegar á Hólmverja vegna fjölkyngi Þorgrímu og komust aftur heim í Hvamm. Frá þessu er sagt í Harðar sögu og Hólmverja. Gamlar vörður hafa verið endurreistar, svo að leiðin er greið og auðrötuð. Örnefnin Löngugötugil og Vegagil innan við Vatnshorn í Skorradal minna á þessar áður fjölförnu götur. Mikið útsýni er af fjallinu til allra átta.

Förum frá botni Hvalfjarðar rétt norðan við ós Botnsár um sneiðinga norður á fjallið Þyril, öðru nafni Selfjall. Förum vestan við Brunnárgil með Paradísarfossi og upp í Reiðskarð í 200 metra hæð. Síðan um fornar og greiðar reiðgötur til norðvesturs upp á fjallið í 390 metra hæð. Þaðan förum við til norðnorðausturs eftir fjallinu um Grjóthlíð, Árnahlíðar og Nyrðra-Þvergil. Þaðan norður fyrir botn Grafardals á Sjónarhól og síðan milli Bæjargils að austan og Stöðugils að vestan niður að Vatnshorni í Skorradal.

9,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Sjónarhóll, Mávahlíðarheiði, Teigfell, Skorradalur, Kúpa.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH