Daglega les ég í fréttum, að einhver pólitíkus, silkihúfa eða annar óbótamaður neiti að tjá sig. Um daginn var nýr lögreglustjóri skipulega í felum, því að hún var aðili að samsæri. Í dag eru tvær fréttir í Fréttablaðinu, þar sem sést, að tveir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafa misst málið og hlaupið í felur. Auðvitað vegna aðildar að siðlausum vinnubrögðum. Í Garðabæ vegna nefndasetu og í Hafnarfirði út af leynifundi á bæjarkontór. Mér sýnist, að almennt ráðleggi almannatenglar minniháttar silkihúfum að hlaupa í felur, hvenær sem glittir í fjölmiðla. Gott er, að fjölmiðlar skrái opinberlega öll slík tilvik getuleysis.