Við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri þess er lögð áherzla á að varðveita stöður yfirmanna og búa til nýjar í staðinn fyrir þær, sem greinilega urðu óþarfar. Eftir breytingarnar eru þar 27 yfirmenn og hefur þeim fækkað um sex.
Á sama tíma eru á borðinu tillögur um að fækka starfsmönnum Sjúkrahúss Reykjavíkur um 96. Það nægir þó ekki til að mæta samdrætti í fjárveitingum til spítalans. Enn eru ekki til neinar tillögur um, hvernig gatinu verði lokað, þótt liðinn sé rúmlega mánuður af fjárhagsárinu.
Rekstrarfræðilega er ástæða til að draga í efa, að sameinað sjúkrahús þurfi nærri eins marga yfirmenn og tveir spítalar þurftu áður samanlagt. Enn frekar er ástæða til að draga það í efa, þegar starfsemi hins sameinaða sjúkrahúss er minnkuð og sumar deildir aflagðar.
Ætla má, að sjúkrahúsinu nægi um 15-20 yfirmenn í stað 27, þegar búið er að sameina reksturinn og skera hann niður í þær fjárhæðir, sem það hefur til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögum ríkisins. Ráðamenn þess telja hins vegar nauðsynlegt að vernda silkihúfurnar.
Sjúkrahús Reykjavíkur er ekki einstætt tilvik. Þegar opinber fyrirtæki þurfa að draga saman seglin, dettur ráðamönnum yfirleitt fyrst í hug að fækka ræstingarfólki og síðast í hug að fækka yfirmönnum. Þetta er bara ein myndbirting vaxandi stéttaskiptingar í landinu.
Mismunun af þessu tagi er ekki aðeins ósiðleg, heldur einnig óhagkvæm. Hún leiðir til aukins klofnings milli yfirmanna og undirmanna og dregur úr áhuga undirmanna á að leggja hönd á plóginn, þegar taka þarf á til að halda fyrirtækinu á floti í lífsbaráttunni.
Í opinberum rekstri skortir oft skilning starfsmanna á hagkvæmni í rekstri. Þeir líta sumir á vinnustaðinn sem eins konar lífsstíl, en ekki sem fyrirtæki, er þurfi að samræma útgjöld og tekjur. Til að framkalla skilning starfsmanna þurfa yfirmenn einnig að bera byrðar.
Þessa hefur ekki verið gætt við sameiningu tveggja spítala í Sjúkrahús Reykjavíkur og hagræðingu í rekstri hins nýja spítala. Yfirstjórn hans hefur af töluverðri hugkvæmni teiknað ný skipurit, sem gera ráð fyrir, að útvegaðar séu hillur handa nærri öllum stjórnendum.
Þetta vekur auðvitað athygli undirmanna, sem bíða nú eftir uppsagnarbréfum, og hefur áreiðanlega áhrif á vinnuframlag sumra þeirra. Ef yfirmannastéttin hefði gengið á undan með góðu fordæmi, væri auðveldara fyrir undirmennina að sætta sig við samdráttinn.
Aðstæður eru alltaf að breytast. Það er gangur lífsins. Þau tímabil koma stundum í rekstri fyrirtækja eða stofnana, að tekjurnar dragast saman. Þetta er það sama og kemur fram í rekstri heimila, þegar illa árar í þjóðfélaginu. Þá þarf fólk að laga útgjöld sín að tekjum.
Flestum heimilum tekst að ná jafnvægi á nýjan leik og sömuleiðis mörgum fyrirtækjum, enda færu þau ella á hausinn. Í opinberum rekstri gengur hins vegar ekki eins vel að ná þessum árangri, því að samhengið er þar ekki eins greinilegt milli tekna og afkomu.
Sjúkrahús Reykjavíkur á við að stríða mikla erfiðleika, sem eru hliðstæðir vandræðum fyrirtækja, er ramba á barmi gjaldþrots. Tillögurnar um samdrátt í rekstri eru sársaukafullar fyrir starfsfólk, en nægja þó ekki til að koma rekstri spítalans í þolanlegt horf.
Slíkar aðstæður leyfa ekki verndun á silkihúfum. Stjórn spítalans ber að skera hlutfallslega meira niður í stjórnunarstöðum hans en í starfsmannahaldinu.
Jónas Kristjánsson
DV