Síminn og Enron

Greinar

Sumt er líkt með Símanum og bandaríska stórfyrirtækinu Enron, sem hafa verið í misjöfnum fréttum að undanförnu. Hvort tveggja starfar á jaðri tveggja heima, Enron keypti og seldi einkavæðingu orkugeirans og Síminn hefur um nokkurt skeið rambað á barmi einkavæðingar.

Hvorki-né staðan er önnur rót vandamála fyrirtækjanna tveggja og eigenda þeirra. Í tilviki Símans er farið að losna um tiltölulega fast mótaðar siðareglur og gildismat ríkisrekstrar, án þess að í staðinn hafi fest rætur tiltölulega fast mótaðar siðareglur og gildismat einkarekstrar.

Önnur rótin er lífsspeki græðginnar, sem hefur að bandarískri fyrirmynd rutt sér til rúms meðal forréttindastétta beggja vegna hafs. Menn hafa tekið trú á klisjuna um, að gróði eins sáldrist til allra hinna. Taumlaus sjálfsbjargarviðleitni eins efli efnahagslífið og magni hag fjöldans.

Þegar lífspeki græðginnar fer saman við losaralegt umhverfi fyrirtækja á breytingaskeiði, verður til eins konar Villta vestrið, þar sem valdamenn fyrirtækjanna sýna ótrúlegt hugmyndaflug við að misnota aðstöðu sína til að skara eld að eigin köku og við að réttlæta framferðið opinberlega.

Þriðja rótin felst í tengslunum við pólitíkina. Hér heima eru raunar allir málsaðilar komnir til skjalanna á pólitískum forsendum frekar en málefnalegum. Í flestum tilvikum eru þeir innstu koppar í búri stjórnmálaflokksins, sem mesta áherzlu leggur á sjálfsbjargarviðleitni.

Vandinn byrjar í sjálfri einkavæðingarnefndinni, sem hefur látið undir höfuð leggjast að setja skorður við lausunginni, sem hefst þegar í aðdraganda einkavæðingar og magnast gegnum allt ferli hennar. Undir verndarvæng einkavæðinganefndar leikur óheft sjálfsbjargarviðleitni lausum hala.

Sjálfur formaður einkavæðingarnefndar gaf tóninn með því að láta greiða sér laun fyrir meinta ráðgjöf, er voru margfalt hærri en þau, sem hann fékk fyrir formennskuna sjálfa. Önnur gæludýr einkavæðingarinnar hafa tekið sér þá aðferð til fyrirmyndar. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Stjórnarmenn ríkisfyrirtækja eru valdir pólitískt og telja stjórnarlaun sín vera greiðslu fyrir að vera til, en ekki fyrir að gera neitt. Þeir sinna því engu því eftirliti og aðhaldi, sem talið er vera hlutverk stjórnarmanna í einkafyrirtækjum. Því gátu ráðamenn Símans leikið lausum hala.

Ekki er von á góðu, þegar pólitísk gæludýr með hugmyndafræði síngirninnar í farteskinu koma að eftirlitslausum ríkisfyrirtækjum, sem eru að breytast í einkafyrirtæki. Niðurstöðuna höfum við séð í nokkrum tilvikum, en hvergi greinilegar en í Símanum, furðulega reknu fyrirtæki.

Af framangreindum ástæðum hefur íslenzk einkavæðing réttilega verið nefnd einkavinavæðing. Ráðamenn þjóðarinnar hafa gripið sérhvert tækifæri einkavæðingar til að koma pólitískum gæludýrum sínum fyrir við kjötkatlana. Gæludýrin fara síðan hamförum í græðginni.

Einkavæðingarnefnd er hluti vandans, en ætti að vera hluti lausnarinnar. Hún ætti að tryggja málefnalegra mannval til forustu ríkisfyrirtækja á breytingaskeiði og einstaklega strangt eftirlit með þeim, í ljósi augljósrar hættu af hinni auknu útbreiðslu á hugsunarhætti græðginnar.

Síminn hefur eins og Enron opinberað fyrir öllum, hvernig Villta vestrið verður til. Þau sýna okkur, að við þurfum skriflegar leikreglur, sem eru miklu nákvæmari en við höfum haft hingað til.

Jónas Kristjánsson

FB