Símstöð fólksins

Greinar

Frjáls fjölmiðill er ekki tæki til sigurs í opinberum málum. Hann getur t.d. ekki knúið fram þjóðstjórn, svo sem lagt var til í annars ágætum kjallara hér í blaðinu á fimmtudaginn. Frjáls fjölmiðill er e.k. símstöð, en alls ekki málgagn.

Tilvist frjálsra fjölmiðla ein breytir þó aðstæðum í þjóðfélaginu, þar á meðal í stjórnmálunum. Hún leysti t.d. málgagnslítinn Alþýðuflokk og málgagnslausan Gunnarsarm undan fjölmiðlaeinokun, veitti þeim, eins og öðrum, aðgang að þjóðinni.

Um leið hafa frjálsir fjölmiðlar hér sem annars staðar reynzt geta orðið að kraumandi skoðanapotti kjallara, leiðara og ekki sízt beinna stjórnmálafrétta, þar sem rætt er við stjórnmálamenn um gang þjóðmála.

Ef við berum saman aðgang almennings að öllum þessum skoðunum og upplýsingum eins og hann er nú og var fyrir áratug, er auðvelt að sjá, að miklu auðveldara er nú að átta sig á því, sem er að gerast og taka skynsamlega afstöðu til þess.

Úr suðupotti stjórnmálanna getur stundum komið eins konar pólitískur vilji. Ákveðnar hugmyndir ná svo almennri útbreiðslu, að stjórnmálaflokkar, helzt fleiri en einn, taka þær upp á sína arma og ná samstarfi um framkvæmd þeirra.

Verðtrygging fjárskuldbindinga hafði lengi kraumað í stjórnmálaflokkum og frjálsri fjölmiðlun, þegar Framsóknarflokkurinn gerði hana að sínu máli í stjórnmálalega aðgengilegu formi og fékk henni framgengt að verulegu leyti.

Þetta var ekki verk frjálsra fjölmiðla, frekar en kosningasigur Alþýðuflokksins árið 1978, Framsóknarflokksins 1979 og Sjálfstæðisflokksins 1982. Í öllum tilvikum lágu að baki straumar, sem endurspegluðust í frjálsri fjölmiðlun.

Mál verða seint knúin til sigurs af einum manni eða fáum. Nokkrir menn geta t.d. sýnt skaðsemi hins hefðbundna landbúnaðar mjólkurvara og lambakjöts ár eftir ár og áratug eftir áratug, án þess að til verði nægur pólitískur vilji.

Í slíku máli dugir ekki, að Alþýðuflokkurinn geri feimnislegar tilraunir til að taka undir nokkur atriði málsins. Meðan aðrir stjórnmálaflokkar standa vörð um vitleysur í landbúnaði, miðar úrbótum mjög hægt, svo sem dæmin sanna.

Hvar er svo hinn pólitíski vilji fyrir þjóðstjórn, sem Bragi Sigurjónsson sækist eftir í kjallaragreinum sínum? Hvergi finnanlegur. Og um hvað ættu svo þessir fjórir flokkar að semja allir saman í einni sæng? Um núll.

Við höfum hins vegar nýtt dæmi um, að myndazt hafi nægur pólitískur vilji. Það er í meðferð aðila vinnumarkaðarins á kjarasamningum. Í sumar kom í ljós á bak við slagorðin, að þeir voru að ræða um hinn raunverulega vanda, skiptingu þjóðartekna.

Annað dæmi er um, að pólitískur vilji sé að verða nægur, – í minnkun fiskiskipastólsins. Fyrirstaða Framsóknarflokksins ætti að bresta um leið og flokkurinn hættir að þurfa að verja linku sjávarútvegsráðherra síns.

Rétt er af Braga að halda áfram baráttu sinni fyrir þjóðstjórn. Kannski taka fleiri undir og um síðir svo mjög, að stjórnmálaflokkarnir fallast á, að nægur þjóðarvilji sé að baki, og breyta þeim vilja í pólitískan vilja.

Um öll slík mál, hvort sem þau eru ný af nálinni eða gömul, hvort sem þau eru fjarri eða nálægt nægum pólitískum vilja, á einmitt að fjalla hér í DV. Hér er suðupotturinn, sem við getum öll hrært í, símstöðin, sem við getum öll hringt í.

Jónas Kristjánsson.

DV