Sandkassaslagurinn í ríkisstjórninni hefur verið harðari að undanförnu en nokkru sinni fyrr og er þá mikið sagt. Munurinn á þessu sandkasti og hinum fyrri er, að forsætisráðherra hefur hætt að leika friðsaman fundarstjóra og er farinn að taka þátt í slagnum.
Hingað til hefur ríkisstjórnin hangið saman á fundarstjóranum, sem hefur séð um, að mál fengju afgreiðslu, þótt smákóngarnir í kringum hann steyttu hnefann hver framan í annan. Nú, þegar hann er hættur að sitja á friðarstóli, er farið að spá endalokum stjórnarinnar.
Forsætisráðherra segir formann þingflokks Framsóknar vera með ómálefnalegan skæting; flokkinn vera með kröfur um vinstristjórnarmennsku, sem ekki verði sinnt; utanríkisráðherra vera að búa til ágreining út af engu; og gelt framsóknarhvolpa sé ekki svaravert.
Allt eru þetta þung orð, sem gætu hentað vel í efnislegri gagnrýni úti í bæ, svo sem í leiðara dagblaðs. Hins vegar eru þau óvenjuleg í munni þess, sem hefur meðal annars það verkefni að stýra fundum þeirra manna, sem hann telur eiga skilið svona hvassa umfjöllun.
Hin nýfengna orðgnótt forsætisráðherra er skýrð á þann hátt, að hann sé í rauninni varfærinn geðprýðismaður, seinþreyttur til vandræða, en hafi loksins látið ganga fram af sér hinar stöðugu árásir framsóknarmanna á meðreiðarmenn sína í ríkisstjórninni.
Forsætisráðherra hefur í rauninni áttað sig á, að Framsóknarflokkurinn og Steingrímur Hermannsson hafa skapað sér þægilega sérstöðu í stjórninni. Sérstaðan hefur gert flokknum kleift að halda fylgi í skoðanakönnunum, þótt öðrum stjórnarflokkum vegni miður.
Sérstaða Framsóknarflokksins felst annars vegar í, að hann gerir harðar kröfur fyrir hönd gæludýra sinna og fær þeim framgengt um síðir, svo sem dæmin sanna í landbúnaði. Hins vegar leikur hann hlutverk andstæðings eða hlutlauss áhorfanda innan ríkisstjórnarinnar.
Sérstöðuleikur er stundaður meira eða minna af öllum aðilum ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar eru meira að segja farnir að bera fram mál á þingi, án þess að um þau sé samkomulag í ríkisstjórninni. Ráðuneytin koma í vaxandi mæli fram sem sjálfstæð og óháð ríki.
Ágreiningur hefur verið í vetur um fjárlög, matarskatt, húsnæðislánakerfi, sýslumannastörf, útgerðarkvóta, vexti og verðtryggingu, og svo auðvitað um allan skattfjárausturinn í landbúnað, svo að fræg dæmi séu nefnd. Slíkur ágreiningur mun halda áfram í haust.
Í flestum ágreiningsmálunum hefur niðurstaðan orðið sú, að ráðherra málaflokksins hefur fengið sínu framgengt. Þetta hefur einkum skipt miklu í landbúnaði. Á því sviði hefur ráðherranum tekizt að vinna hverja einustu orrustu við ráðherra Alþýðuflokksins.
Þótt stríðið innan ríkisstjórnarinnar hafi magnazt með þáttöku forsætisráðherra, er ekki þar með sagt, að hún sé nær falli en hún var á slagsmálatímum í vetur. Raunar má segja, að hún sé orðin svo vön ágreiningi, að hún hafi lært að búa við hann sé orðin ónæm.
Við megum ekki gleyma, hversu mikill viðloðunarkraftur felst í sambandi ráðherra og stóls, þegar þeir fara að gróa saman. Það er ánægjulegra að vera ráðherra í sundurþykkri óstjórn, en að vera einn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, hrópandi úti í eyðimörkinni.
Vegna þess, sem hér hefur verið rakið, verður sandi áfram kastað í sandkassanum, en stjórnin mun sitja áfram lengi enn og halda áfram að skaða þjóðarhag.
Jónas Kristjánsson
DV