Íslendingar safna betur til ellinnar og hugsanlegrar örorku en allar þjóðir heims aðrar en Hollendingar og Bretar. Ríkisvaldið þarf lítið að koma til skjalanna hér á landi, af því að fólk hefur meira eða minna safnað fyrir þessu sjálft með aðild sinni að lífeyrissjóðum.
Við búum ekki við gegnumstreymissjóði, þar sem starfsfólk nútíðarinnar safnar handa starfsfólki fortíðarinnar og starfsfólk framtíðarinnar safnar handa starfsfólki nútíðarinnar. Hér safnar hver kynslóð sínum lífeyri og sjóðirnir eru því sjálfbærir á hverjum tíma.
Undantekningar eru á þessu. Þannig safna opinberir starfsmenn á Íslandi ekki sjálfir fyrir sínum lífeyri nema að hluta og láta skattgreiðendur framtíðarinnar sjá um afganginn. Þessa ósiðlegu álagningu á afkomendur okkar þarf að afnema og gera þessa sjóði sjálfbæra.
Ennfremur hafa sumir sjóðir ekki verið nógu vel reknir til að eiga fyrir skuldbindingum sínum. Þeim fer fækkandi, eftir því sem rekstur sjóða batnar og þeir sameinast í færri og öflugri sjóði, sem hafa aðgang að margfalt fjölbreyttari fjárfestingarkostum en áður.
Þótt við höfum staðið okkur betur í lífeyrismálum en aðrar þjóðir, búum við engan veginn við fullkomið ástand. Alvarlegast er, að félög vinnumarkaðarins hafa lengst af ekki samið um að leggja til hliðar hærri upphæðir til lífeyris en sem nemur sultartekjum.
Til að koma þessum málum í gott horf, þurfa lífeyrisgreiðslur að miða við, að fólk fái á elliárum eða við örorku tvo þriðju af raunteknum sínum í fullu starfi, en ekki tvo þriðju af töxtum, sem oftast hafa verið lægri en rauntekjur og í sumum tilvikum mun lægri.
Hækkun skyldutryggingar úr 10% í 12,2% er mikilvægt skref til að koma lífeyrissparnaði kynslóðanna í sjálfbært horf. Ný sparnaðarleið hefur opnazt með því að gefa fólki kost á að leggja viðbótina í nýja séreignarsjóði eða séreignadeildir gömlu sameignarsjóðanna.
Æskilegt er, að frekari hlutfallshækkun lífeyrissparnaðar frá því, sem nú er, verði fremur í formi séreignar en sameignar, af því að hún gefur sparendum betra svigrúm til að nýta sparnað sinn meira á fyrri árum ellinnar, þegar útgjaldaþörfin er meiri en síðar verður.
Fyrir samfélagið er gott að hafa tvöfalt kerfi af þessu tagi. Það þýðir, að sameignarsjóðirnir sjá um, að fólk komist ekki á vonarvöl, og séreignarsjóðirnir sjá um, að það hafi mannsæmandi lífskjör. Ríkisvaldið þarf ekki nema að litlu leyti að koma til skjalanna.
Auðvitað eru og verða áfram undantekningar á þessu, þótt lífeyrissjóðirnir eflist, fái hærri prósentu af tekjum og nái til fleiri en áður. Vegna atvinnuskorts safna sumir minni lífeyri en aðrir og sumir alls engum. Þessum tilvikum fækkar ört, en þau verða áfram til.
Mikilvægt er, að ríkið komi betur til skjalanna á þessu sviði og hækki ellilífeyri almannatrygginga frá því sem nú er. Ekki ber að lasta, þótt skref í þá átt séu stigin í taugaveiklun ríkisstjórnar, sem horfir of mikið og of snemma á skoðanakannanir um kjörfylgi flokka.
Í sjálfbæru kerfi hvílir mikil ábyrgð á lífeyrissjóðunum. Mikið er í húfi, að þeir standi sig vel, ávaxti peninga sjóðsfélaga eins vel og unnt er, án þess að taka of mikla áhættu. Skelfilegt væri, ef einstakir lífeyrissjóðir yrðu gjaldþrota vegna ógætni stjórnendanna.
Ef hægt er að hafa hemil á lélegum fjárfestingum ávöxtunarþyrstra lífeyrissjóða, erum við með sjálfbært lífeyriskerfi, sem verður mjög gott á næstu árum.
Jónas Kristjánsson
DV