Sjálfseyðing góðærisins

Greinar

Þeir, sem gera það gott í góðærinu, kaupa of mikið af bílum, fara of mikið í utanlandsferðir og nota peningana yfirleitt of mikið í rekstur líðandi stundar. Þetta veldur geigvænlegum halla á utanríkisviðskiptunum, æsir til verðbólgu og grefur þannig undan sjálfu góðærinu.

Nauðsynlegt er, að ábyrgir og áhrifamiklir aðilar brýni sem mest fyrir fólki, sem er aflögufært, að það setji peninga góðu áranna í ávöxtun til notkunar á mögru árunum eða í ellinni. Það eyði ekki peningunum, heldur safni þeim og láti þá vinna fyrir sig.

Þetta eru auðvitað margtuggin sannindi langt aftur í Mósebók, en flytjast því miður ekki greiðlega milli kynslóða. Í andrúmslofti eyðslunnar verður hver ný kynslóð að læra að spara, því miður of oft af biturri reynslu. Langtímahugsun hefur ekki reynzt fólki auðveld.

Stjórnvöld hafa takmörkuð tæki til að hafa áhrif á þetta. Í tengslum við kjarasamninga hefur ríkisstjórnin lofað að lækka tekjuskattinn um 4% um næstu áramót og sturta þannig hálfum öðrum milljarði króna inn á sóunarmarkað bílakaupa og utanlandsferða.

Ekki er góð latína að ganga á bak orða sinna, þótt slíkt hafi jafnan komið fyrir ríkisstjórnir hér á landi. Slíkt grefur undan trausti og getur hæglega orðið kjósendum minnisstætt nokkrum mánuðum síðar, þegar þeir ganga að kjörborðinu í alþingiskosningum næsta árs.

Þess vegna neyðist ríkisstjórnin til að lækka skatta um áramótin, þótt hagfræðin segi, að við núverandi skilyrði sé nauðsynlegt að hækka skatta. Þess vegna verður að leita annarra úrræða við að þrýsta fólki til ákvarðana, sem eru í þágu þess sjálfs og þjóðarinnar í heild.

Það má gera með því að hækka vexti. Því hærri sem vextir eru, þeim mun líklegra er, að fólk leggi fyrir til að græða vexti og þeim mun líklegra er, að það tími ekki að lifa um efni fram. Hærri vextir dempa líka óhóflega framkvæmdaþrá og þenslu í atvinnulífinu.

Þessi aðferð er þeim annmarka háð, að útlánavextir eru hér hærri en í nágrannalöndunum og hefta samkeppnishæfni atvinnulífsins. Munurinn stafar einkum af lélegum bankarekstri og af herkostnaði við að halda Íslandi og krónunni utan við Evrópusamstarfið.

Auðvitað væri unnt að stokka upp bankakerfið, kasta út pólitísku kvígildunum og hefja ábyrgar lánveitingar. Og auðvitað væri unnt að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna sem gjaldmiðil. En þetta eru of stórar ákvarðanir fyrir ríkisstjórn lítilla sanda og sæva.

Þá er aðeins eitt eftir, sem getur dregið úr óhjákvæmilegri vaxtahækkun. Gera má ýmsan sparnað girnilegri fyrir fólk, þótt varhugavert sé að mismuna sparnaðarformum of of. Sérstaklega væri áhugavert að búa í haginn fyrir stóraukinn lífeyrissparnað fólks.

Ný lög gera fólki kleift að leggja til hliðar meira en þau 4+6%, sem flestir kjarasamningar gera ráð fyrir. Þau gera fólki einnig kleift að velja milli sameignar- og séreignasjóða í þeim lífeyrissparnaði, sem umfram er. Með skattfríðindum mætti þrýsta á þessa þróun.

Þjóðhagsstofnun spáði nýlega 24 milljarða viðskiptahalla á þessu ári. Sú spá mun reynast of væg, þegar hver stéttin á fætur annarri áttar sig á kúgunargildi þess að nota þensluna á vinnumarkaði og segir hreinlega störfum sínum lausum til þess að láta kaupa sig til baka.

Ef stjórnvöldum tekst ekki að búa í haginn fyrir minni viðskiptahalla, fer verðbólgan á skrið. Þá heldur rugl fyrri áratuga innreið sína í þjóðfélagið að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV