Sjálfsgagnrýni er engin

Greinar

Kotrosknum bjartsýnismönnum í loðdýraeldi er ekki leyft að fara mildilega á höfuðið í smáum stíl. Sjálfsgagnrýnislausir ráðamenn sjá um, að þeir fari harkalega á höfuðið í stórum stíl. Stóri bróðir magnar loðdýratjónið með takmarkalítilli fyrirgreiðslu skattgreiðenda.

Kotrosknum bjartsýnismönnum í fiskeldi er ekki leyft að fara mildilega á höfuðið í smáum stíl og tiltölulega snemma á ferli ævintýrisins. Sjálfsgagnrýnislausir ráðamenn sjá um, að gjaldþrotið verði stærra og víðfeðmara. Úr milljónatjóni er búið til milljarðatjón.

Afskekktum byggðum landsins er ekki leyft að lognast út af á náttúrulegan hátt eins og tíðkaðist áratugum saman. Nú verður fyrst að pumpa tugum og hundruðum milljóna í gjaldþrotið, svo að það verði nánast óviðráðanlegt og að allir gangi slyppir og snauðir á brott.

Ekki er óeðlilegt, að fjórum af hverjum fimm gangi illa, þegar fitjað er upp á nýjungum í atvinnulífinu. Heppilegt er, að nýjungahraðinn sé ekki of mikill og að grisjunin verði tiltölulega snemma og tiltölulega ódýr. Það gerist með því að spara gælurnar við nýbreytnina.

Hér á landi er nýbreytni í atvinnulífi kaffærð í gælum opinberra sjóða. Fyrirgreiðslan sogar að sér bjartsýna skussa. Það leiðir til, að níu af hverjum tíu verða óhjákvæmilega gjaldþrota og að hvert gjaldþrot út af fyrir sig verður margfalt stærra en ella hefði orðið.

Ekki verður séð, að nokkru sinni hafi verið heil brú í loðdýraævintýrinu, þar sem fórnað hefur verið þremur milljörðum króna í fjárfestingu í útflutningi, er nemur innan við 200 milljónum á ári. Og enn á að ausa peningum í refina, svo að gjaldþrotið mun stækka enn.

Með hjálp hins opinbera er búið að koma upp Silfurstjörnum í fiskeldi víðs vegar um land. Margar eldisstöðvarnar eru að verða gjaldþrota eða orðnar gjaldþrota, áður en komið er að sölu afurðanna, sem verður næsta reiðarslag, því að hún er afar illa undirbúin.

Hinir kotrosknu bjartsýnismenn í atvinnulífinu eru út af fyrir sig ekki mjög dýrir og eru þar að auki nauðsynlegir til að koma nýjungum af stað. Það eru ráðamenn án sjálfsgagnrýni, sem gera ævintýri síðustu ára svo hrikalega dýr, að þjóðarbúið leikur á reiðiskjálfi.

Ráðamenn þjóðarinnar rembast og reigjast í sjónvarpi. Þeir tala ábúðarmikið eins og þeir, sem valdið og vitið hafa. Þeir eru sífellt reiðubúnir að bruna á vettvang til björgunar, hvar sem illa gengur. Þeir virðast ekki hafa hugmynd um, að þeir eru með allt á hælunum.

Verst er, að þjóðin, sem horfir á, virðist ekki átta sig á, að ráðamennirnir eru ekki í neinu. Mikill fjöldi fólks horfir á valdhafana og trúir því beinlínis, að þeir séu í fötum. Mikill fjöldi fólks heldur, að ráðamenn séu sérhæfðir til að leysa alls konar vandamál úti í bæ.

Svo mikil er trúin á mátt ráðamanna, að Tíminn krafðist þess í stórri fyrirsögn, að þeir “refsuðu” Rússum fyrir að vilja ekki fullgilda síldarkaupasamning, sem undirritaður var með eðlilegum fyrirvara. Og menn heimta bláeygir, að ráðherrar fari til Moskvu!

Þótt dæmin sýni, að velvilji og fjáraustur valdhafa hafi frekar ill áhrif en góð, er þjóðin smám saman að sætta sig við, að byggt sé upp úthlutunarþjóðfélag, þar sem atvinnuvegum þjóðarinnar er meira eða minna stjórnað úr sjóðum, þingsölum og ráðuneytum.

Það er eins og þessi kotroskna bjartsýnisþjóð sé farin að trúa, að hreinn skortur á sjálfsgagnrýni ráðamanna sé merki um hæfni þeirra til að hræra í öllum pottum.

Jónas Kristjánsson

DV